Nafnlaunahækkanir á borð við þær sem læknar sömdu um í krafti verkfallsaðgerða geta ekki gengið yfir allar stéttir í komandi kjarasamningum. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við RÚV . Bjarni segir í samtali við Viðskiptablaðið að brýnt sé að samningsaðilar hafi áframhaldandi stöðugleika að leiðarljósi, enda hafi raunverulegar kjarabætur á seinasta ári verið mjög umfram það sem íslenskir launþegar hafi almennt mátt venjast.

„Það er ekki hægt að láta kjarabætur á borð við þær sem læknar náðu með þessum samningum, og ég er þá að ganga út frá því að þeir verði samþykktir, ganga yfir allan vinnumarkaðinn“ segir Bjarni Benediktsson í samtali við RÚV.

Í fréttum undanfarna daga hefur því verið haldið fram að launakostnaður lækna hækki um nær 30%, en þeir hafa staðfastlega neitað að verða við kröfum fjölmiðla um að upplýsa um kröfur sínar í aðdraganda kjarasamninganna eða innihald þeirra að öðru leyti.