Guðmundur Jóhann Jónsson hefur starfað í tryggingabransanum í um 34 ár en hann starfaði lengst af hjá Sjóvá áður en hann tók við stjórn Varðar árið 2006. Nýlega kom í ljós að Vörður mældist efst á meðal tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni en Guðmundur segir að þjónustumiðuð áhersla hafi skilað fyrirtækinu þessum árangri.

„Við erum minnsta félagið á markaðinum og með stystu söguna,“ segir Guðmundur. „Við fengum á okkur orð frá keppinautunum um að hafa lágt verð fyrstu árin. En þú rekur ekki tryggingafélag á lægri verðum til lengri tíma vegna þess að útgjaldahliðin er sú sama hjá öllum félögunum. Þjónustan er því lykilatriði. Við getum ekki komið inn á markað þar sem eru reynd félög, þ.e. þessi þrjú sem við erum að keppa við, og keppt bara á verði og gleymt þjónustunni.

Auðvitað er ekkert eitt sem gat af sér þennan árangur en það er eitt sem ég er frekar stoltur af. Það heyrist gjarnan frá viðskiptavinum tryggingafélaga að það er ekkert frumkvæði í samskiptum. Þ.e. að það heyrist ekkert í okkur nema þegar við sendum reikninginn. Við höfum gert mikið af þjónustukönnunum og ef við fáum neikvæðar umsagnir þá hringjum við í viðskiptavini og spyrjum þá út í hvað það er sem þeir eru ósáttir við. Við höfum gert þetta í tvö ár og hringt í þúsundir viðskiptavina hjá okkur. Ég held að þetta sé nýmæli og ég held að fólk kunni að meta þetta. Starfsmennirnir voru skeptískir á þetta í fyrstu og bjuggust við neikvæðum við­ brögðum en svo kom í ljós að fólk kann að meta þetta og þakkar okkur fyrir að hafa samband.“

Nánar er rætt við Guðmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .