„Við sögðum að það gengi ekki að greiða 1 milljarð fyrir 50 milljarða hluti,“ segir lögmaðurinn Bjarnfreður Einarsson. Honum og Lýð Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni, er gefið að sök að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkun Exista veturinn 2008 þegar félagið BBR keypti hlutabréf í Exista upp á 50 milljarða króna að nafnvirði fyrir einn milljarð króna. BBR var í eigu þeirra Lýðs og bróður hans Ágústs Guðmundssonar.

Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is , fjallar um fyrirtöku í máli embættis sérstaks saksóknara gegn þeim Lýð og Bjarnfreði sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Áðurnefnd tilvitnun í Bjarnfreð las Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari upp úr skýrslu sem tekin var af honum. Þar kom fram að lögfræðistofan Logos, sem Bjarnfreður vinnu hjá, hafi ekki viljað gefa lögfræðilegt álit sitt á málinu.

Morgunblaðið segir jafnframt að Hildur Árnadóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Existu, hafi verið við fyrirtöku málsins. Hún hafi sagt tilgang hlutafjáraukningarinnar þá að stærstu hluthafar félagsins hafi viljað styðja við félagið. Ætlunin hafi ekki verið sú að þynna eignarhlut annarra.