Í ljósi óvissu í efnahagslífinu sé réttlætanlegt að framlengja hlutabótaleiðina og tekjutengdar atvinnuleysisbætur en ómögulegt að ætla að hækka grunnbætur án þess að velta byrðum yfir á atvinnulífið. Slíkt komi ekki til greina. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Að undanförnu hafa heyrst nokkuð háværar raddir þess efnis að rétt sé að hækka almennar atvinnuleysisbætur. Bjarni segir að slíkt gangi ekki upp en möguleiki sé á að ríkissjóður taki tímabundið á sig tímabundna hækkun tekjutengdu bótanna. Sú lenging sé réttlætanleg vegna atvinnustigsins og sökum þeirrar miklu óvissu sem uppi er. Ekki sé hins vegar innistæða fyrir því að hækka grunnbæturnar.

„Atvinnuleysisbæturnar eru tryggingarréttindi sem eru fjármögnuð með hluta tryggingagjaldsins. Sá hluti nemur 1,35% í dag. Þegar það fer af stað umræða um að hækka eigi atvinnuleysisbætur eða breyta þeim réttindum verður að fylgja samhliða hvaða áhrif það á að hafa á tryggingagjaldið.“

Að sögn Bjarna hefur mikið vantað upp á þetta hjá hluta þingmanna. Á stuttum tíma hafa elli- og örorkulífeyrir, sem að hluta til eru fjármögnuð af sama tryggingagjaldi, tvöfaldast og standa nú samanlagt í um 150 milljörðum króna á ári. Samhliða því hefur tryggingagjaldið lækkað lítillega í nokkrum skrefum.

„Í hruninu var það afstaða ríkisstjórnarinnar á þeim tíma að iðgjaldið stæði alls ekki undir greiddum bótum og var það þá stórhækkað. Við erum enn stödd í umræðu um að ríkið skuldi lækkun tryggingagjaldsins en samt er það svo að atvinnutryggingagjald hefur ekki staðið undir atvinnuleysisbótum síðan 2018 og í ár vantar tugi milljarða uppá að svo sé. Þingmenn hafa mikinn áhuga á alls konar lengingum og hækkunum bóta almannatrygginga og annarra réttinda en fáir hafa áhuga á að ræða fjármögnunina. Það er risaákvörðun núna að ríkissjóður sætti sig við að fá eingöngu 1,35% tryggingagjald miðað við ótrúleg útgjöld málaflokksins á þessari stundu. Til lengri tíma litið gæti núverandi upphæð dugað og því er betra að ríkið taki þetta á sig í stað þess að velta því yfir á atvinnulífið, einmitt þegar atvinnuleysið er mest,“ segir Bjarni.

„Ég hef lengi verið talsmaður lækkunar tryggingagjaldsins en sem stendur er ekki svigrúm til þess og alls ekki ef það er höfð uppi krafa um að hækka atvinnuleysisbætur. Það er ekki hægt að leggja það á atvinnulífið að fjármagna slíkar hækkanir.“

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaði dagsins. Þar ber meðal annars Icelandair og lífeyrisskuldbindingar ríkisins á góma. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .