Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, hafði þá beint fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra hvort ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hygðust beita sér fyrir því að launadeila lækna og ríkis yrði leyst.

„Verkfall lækna hefur staðið yfir í á sjöttu viku og hefur þegar haft gríðarleg áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu. Biðlistar lengjast og voru langir fyrir," sagði Sigríður Ingibjörg á þinginu áður en hún beindi fyrirspurn til forsætisráðherra. Hún velti því einnig fyrir sér hvort ríkisstjórn hefði rætt sín á milli um lengingu biðlista og hvernig hægt væri að laða lækna til starfa hér á landi á ný.

Myndu líta á launahækkanir sem fordæmi

„Ég hef verulegar áhyggjur af verkfalli lækna," svaraði Sigmundur Davíð. Hann sagði að áhersla ríkisstjórnarinnar á heilbrigðismál birtist meðal annars í því að framlög til þeirra hefðu verið aukin eftir niðurskurð síðustu ára. Það birtist meðal annars í því að framlög til Landspítala hefðu aldrei verið hærri.

„Hinsvegar liggur ljóst fyrir að enn sem komið er telja einhverjir aðilar vinnumarkaðarins, líklega flestir, að ekki sé hægt að líta á kjaradeilu lækna og ríkisins sem einangrað tilvik sem ekki muni skapa fordæmi allstaðar annarstaðar," segir Sigmundur. Því þurfi að líta til heildaráhrifa sem gætu hlotist af því að fallast á launakröfur lækna.