Ingibjörg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins, formaður ferðamálasamtaka á höfuðborgarsvæðsins og stjórnarkona í Félagi kvenna í atvinnulífi var í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér.


Eftir að Ingibjörg lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1999 þá starfaði hún sem fjármálaráðgjafi,  deildarstjóri Hagdeildar og Fjárhagseftirlits hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Ingibjörg leiddi  kostnaðargreiningu þegar byrjað var að leggja áherslu á slíkar greiningar innan spítalans.

„Það var mjög gaman að vinna á Landspítalanum þar sem önnur hugmyndafræði við fjármál er en á almennum markaði. Gæðaþátturinn er mjög mikilvægur og siðferðislegar spurningar mikilvægar við gerð fjárhagsáætlana,“ segir Ingibjörg aðspurð um hvernig það hafi verið að starfa hjá Landspítalanum.

En það hlýtur að vera erfitt að standa frammi fyrir þeirri stöðu að skera þurfi niður um ákveðið marga milljarða?
„Já, það er mjög erfitt að draga saman um tugi milljóna og jafnvel milljarða án þess að stjórnendur spítalans fái skilaboð um hvar í rekstrinum eigi að draga saman. Því miður er pottur brotinn í þeim efnum hjá ríkistjórninni. Það er langt frá því að vera auðvelt fyrir stjórnendur og það eru margar siðferðislegar spurningar sem þarf að svara. Til dæmis hjá hvaða sjúklingahóp á að minnka þjónustu eða jafnvel hætta? “

Túban tæmist
En hversu langt er hægt að ganga í niðurskurði innan heilbrigðiskerfisins?
„Ég held að það sé komið á enda. Það er ekki hægt að kreista tannkremið úr túbunni endalaust. Túban tæmist á endanum. Næsta skref er að drífa í að reisa nýjar byggingar við Hringbraut og flytja starfsemina úr Fossvoginum. Það þarf að hætta þessari pólitísku gagnrýni og aðfinnslum á staðsetningu á spítalanum, Hringbrautin er besta staðsetningin því að þar verða samlegðaráhrifin," segir Ingibjörg sem telur framtíðarstaðsetningu spítalans eiga að vera við Hringbraut.

Nú hafa heyrst gagnrýnisraddir um að samlegðaráhrifin verði ekki jafn mikil og af er látið. Ertu viss um að sameining spítalanna eigi eftir hafa í för með sér hagræðingu?
„Það er 100% að það verður hagræði í því bæði fjárhagslegar og umfram allt stóraukið öryggi sjúklinga. Byggingar sem standa í dag eru gamlar og ósveigjanlegar, loftræstikerfi úrelt og sýkingarhætta mikil. Þú vilt ekki fara inn á spítalann með einnn sjúkdóm og út með annann eða jafnvel smitast af einhverri ólæknanlegri veiru, en svona er því miður raunveruleikinn í dag. Það er ekki heldur hægt að bjóða fárveikum sjúklingum upp á að fara í sjúkrabíl á milli spítalaeininga.  Á undanförnum árum  hefur starfsfólk undir stjórn Björns Zoega lyft Grettistaki í að hagræða í rekstri Landspítalans. Enn eru gnægð tækifæra sem koma ekki fyrr en klárað er að sameina spítalana tvo.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.