Ríkisskattstjóri telur að ekki verði mögulegt að taka við umsóknum um leiðréttingar vegna verðtryggðra fasteignalána frá 15. Maí 2014. Þetta kemur fram í umsögn hans til fjárlaganefndar Alþingis. Frumvarp um leiðréttingu og skattfrjálsan séreignarsparnað vegna niðurgreiðslu lána er fyrir nefndinni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkisskattstjóri sjái um framkvæmd leiðréttinganna.

Þegar frumvörpin voru kynnt tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram að þeir gerðu ráð fyrir að hægt yrði að taka við umsóknum frá 15. maí. „Ríkisskattstjóri telur að gildistaka frumvarpsins þarfnist endurskoðunar í ljósi þess hve nálægt  er komið þeirri dagsetningu. Ætla verður að umfjöllun Alþingis muni taka nokkum tíma og  af þeim sökum verður ekki séð að umrædd dagsetning sé lengur raunhæf,“ segir í umsögn Ríkisskattstjóra.