Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir að ekki sé hægt að fallast á launakröfur lækna. Læknar fara fram á hækkun grunnlauna um 30-36%. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun nóvember að heildarlaun lækna á Landspítala yrðu þá á bilinu 1,11 til 1,65 milljónir króna á mánuði. Það er talsvert umfram launaþróun annarra opinberra starfsmanna.

Þetta segir heilbrigðisráðherra vera of miklar kröfur af hálfu lækna. "Við höfum átt fund með forystu lækna um það með hvaða hætti ég tel að nálgast eigi þetta verkefni. Það eru sannmæli um það að við viljum öll hafa hér öflugt heilbrigðiskerfi sem stenst samkeppni við heilbrigðiskerfi í okkar nágrannalöndum. Við eru hins vegar í nokkrum vandræðum með að finna leiðir að sameiginlegri niðurstöðu," er haft eftir Kristjáni á fréttavef RÚV.

Hann segist ekki telja skynsamlegt að setja lög á verkfall lækna.