Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmastjóri Landverndar, segja að ekki sé hægt að selja inn á alla ferðamannastaði og að þeir fjármunir sem fáist ef að gjaldtöku verður þurfi að nota fyrir rekstur á náttúruverndarsvæðum sem og fræðslu og landvörslu fyrir landið allt. Frá þessu er greint í Fréttatímanum.

"Það gefur auga leið að það er ekki hægt að selja inn á alla ferðamannastaði. Inn á suma staði eru margar aðkomuleiðir og ef menn ætla að hafa einhvern til að selja á öllum leiðum þá fer það allt í kostnað," segir Erna.

Erna segir mikinn undirbúning þurfi áður en ákvarðanir um gjaldtöku til framtíðar séu teknar. Hún segir margt mæla á móti því að selt verði inn á alla staði. Ferðamálastofa hefur fengið verkfræðistofu til að meta gjaldtökumálin og mun sú stofa einnig skoða hvernig slík mál eru leyst erlendis. Erna segir í samtali við Fréttatímann að líklegast verði teknar ákvarðanir í haust um gjaldtökuna. "Við munum hafa eitthvað um þetta að segja en verkefnið er ekki auðvelt," segir Erna.