Mikilvægt er að blanda ekki saman almennum lífeyrissjóðum og sjóðum með bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga þegar lagt er mat á tryggingafræðilega stöðu þeirra. Þetta segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Í ársskýrslu FME er farið yfir tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna. Í skýrslunni segir að þrátt fyrir miklar eignir lífeyrissjóða þá sé talsverður halli á samtryggingadeildum þeirra, þ.e. skuldbindingar séu mun hærri en eignir. Til þess að bregðast við þessum halla þurfi árleg ávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna til lengri tíma að vera umfram ávöxtunarviðmið sjóðanna.

Þórey segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé hægt að setja alla lífeyrissjóði undir sama hatt, líkt og gert er í ársskýrslu FME, heldur séu tvö lífeyrissjóðakerfi í landinu sem starfi með ólíkum hætti.

Annars vegar eru almennir sjóðir þar sem greitt er út í samræmi við eignir á hverjum tíma. Hins vegar eru opinberir sjóðir þar sem réttindi eru skilgreind fyrirfram og launagreiðandi ber síðan ábyrgð á fjármögnuninni ef eignir duga ekki til. Hún segir að hallinn orsakist aðallega af opinberu sjóðunum en ekki þeim almennu og því gefi það ekki rétta mynd af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða landsins að fjalla um þessa sjóði saman.