Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun hafa skilað inn umsögnum um þingsályktunartillögu Vigdísar Hauksdóttur, Karls Garðarssonar og Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanna Framsóknarflokks. Í umsögnunum kemur fram að tillaga þingmannanna gangi ekki upp. Þingsályktunartillagan er á þá leið að „færustu sérfræðingar á sviði auðlindaréttar“ verði fengnir til að „semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru“.

Í umsögnunum er því haldið fram að ekki sé hægt að skilgreina hugtakið auðlind „með tæmandi hætti þar sem auðlindir hljóta ávallt að vera tengdar því sem hægt er að nýta með þeirri tækni og þekkingu sem fyrirfinnst á hverjum tíma,“ að því er segir í umsögn Umhverfisstofnunar. Umsögn Náttúrufræðistofnunar er efnislega samhljóða.