Þróun á heimsmarkaðsverði á olíu mun að líkindum hafa áhrif á verðbólguspá Seðlabankans og er óvænt kjarabót fyrir íslensk heimili. Þetta segja Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, og Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka.

Aðspurður hvort samtök launþega geti notað lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem vopn í baráttu sinni fyrir hækkun á nafnlaunum í kjarabaráttu segir Þórarinn svo ekki vera. „Olíuverðslækkun er eitthvað sem getur auðveldlega gengið til baka.“ Ekki megi horfa hjá því að þróunin feli sjálf í sér kaupmáttaraukningu og óráðlegt sé að hækka nafnlaun nema framleiðniaukning komi á móti.