*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 25. apríl 2020 13:09

Innlend ferðaþjónusta ekki lausnin

Stjórnvöld settu ferðaþjónustuna inn í sína atvinnustefnu og það er ekki hægt að hætta við það á einni viku.

Trausti Hafliðason
Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka.
Haraldur Guðjónsson

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að hvað ferðaþjónustuna varði þá verði að horfast í augu við þá staðreynd að tekjur af erlendum ferðamönnum séu 12% af landsframleiðslu.

„Þetta er langtum hærra hlutfall en í öðrum löndum, sem við berum okkur saman við. Hlutfallið er til dæmis í kringum 2% í Frakklandi, sem er stærsta ferðaþjónustuland í heimi.

Erlend kortavelta var fjórðungur af kortaveltu hérlendis í fyrra og 90% af kortaveltu til gistiþjónustu og bílaleigna voru frá ferðamönnum. Meirihlutinn af gistirými fyrir ferðamenn er í Reykjavík og því miður get ég ekki séð fyrir mér að margir Íslendingar séu að fara að bóka sér hótelherbergi í borginni í sumar. Það er því ekki hægt að treysta á innlenda ferðaþjónustu í þessu samhengi.

Þótt það hafi verið offjárfesting í ferðaþjónustu þá nam hún ekki 70 til 80% en við erum einmitt að horfa fram á 70 til 80% tekjutap í þessum geira. Ég get ekki ímyndað mér að menn vilji að hlutirnir hrynji til grunna á nokkrum vikum.

Það er búið að eyða gríðarlegum peningum í að byggja upp innviði í ferðaþjónustu. Ekki bara í steypu, heldur þekkingu og notendabúnaði. Eitthvað af þessu þarf að þjappast saman og einhverjir munu þurfa að fara á hausinn en ekki jafnmargir og nú blasir við.“

Kristrún segist aldrei hafa verið sérstakur talsmaður ferðaþjónustunnar því að mörgu leyti henti hún íslenskum vinnumarkaði illa. Greinin sé hins vegar hluti af atvinnustefnu stjórnvalda og því verði ekki breytt á einni viku.

„Þetta er vinnuaflsfrek grein, við borgum mjög há laun og erum með hátt menntastig og erfiðan gjaldmiðil,“ segir Kristrún. „Þetta eru allt þættir sem vinna á móti greininni. Það breytir því ekki að við fengum þessa atvinnugrein í fangið á árunum 2013 til 2014. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að setja ferðaþjónustuna inn í sína atvinnustefnu og fólk hefur beinlínis verið hvatt til þess að fjárfesta. Það er ekki hægt að hætta með þessa atvinnustefnu á einni viku — fórnarkostnaðurinn er alltof mikill.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.