*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 29. nóvember 2020 14:47

„Ekki heil brú“ í rökum um sykurskatt

Innbyrðis ósamræmi í tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra um neyslustýringarskatt að mati FA. Byggja á úreltum tölum.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen er formaður Félags atvinnurekenda.
Haraldur Guðjónsson

Tillögur í skýrslu starfshóps Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um neyslustýringarskatt til að draga úr sykurneyslu landsmanna eru ekki með neinu innra, röklegu samhengi að mati Félags atvinnurekenda.

Í tillögunum er gert ráð fyrir skattahækkunum á fyrst ýmsa gos- og svaladrykki og síðan á sælgæti, orku- og próteindrykki, kex, kökur og sætabrauð svo hvort um sig hækki um 20% í verði. Félagið bendir hins vegar á að samkvæmt tillögunum yrði settur skattur á ýmsa gosdrykki með sætuefnum öðrum en sykri, með vísan í tannverndarsjónarmið, en ekki á sykraða mjólkurvörur.

Rökin séu sú ósykruðu drykkirnir geti eyðilagt glerung vegna sýru sem og þeir viðhaldi löngun í sætt bragð, meðan dísætar mjólkurvörur yrðu undanteknar því að þær veiti ýmis næringarefni. Það sama muni þó ekki gilda um ýmsa orku- og próteindrykki.

„Í þessum rökstuðningi er því ekki heil brú,“ segir í bréfi sem FA hefur sent heilbrigðisráðuneytinu vegna málsins. „Starfshópurinn vill heldur ekki leggja neyzlustýringarskatt á mjólkurvörur þótt þær séu margar hverjar dísætar, t.d. kókómjólk eða engjaþykkni (Í 100 g af Coca Cola eru 10,6 g af sykri, í sama magni af engjaþykkni frá MS eru 13-16 g og af kókómjólk 8,7 g).“

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir jafnframt í bréfinu það vera umhugsunarefni að ekki sé í tillögunum gert ráð fyrir því að beina neyslu fólks í augljósa valkosti við sykraða drykki, það er drykki með sætuefnum.

Félagið gagnrýnir jafnframt að Landlæknisembættið og starfshópurinn noti gamlar og úreltar tölur, og hafi hunsað boð um samstarf um að leiða fram réttar tölur um þróun sykurneyslu landsmanna.

Félagið hafi til að mynda boðið fram sölutölur sem sýni að neysla á sykruðum drykkjum hafi minnkað hratt undanfarinn áratug, og ekki hafi þurft sykurskatt til. Jafnframt sé stutt við frumniðurstöður úr matarræðiskönnun sem ekki hafi verið birt opinberlega og engin leið sé að sannreyna.

Vörugjaldafrumskógurinn ræktaður upp á ný

Loks bendir félagið á að gangi tillögurnar eftir yrðu þrjú þrep í virðisaukaskatti á matvörur, auk vörugjalds á sumar vörur. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins í starfshópnum hafi ekki staðið að tillögunum því þær hefðu flækt virðisaukaskattkerfið.

Það myndi aftur búa til gríðarlega vinnu og kostnað fyrir fyrirtæki í matvöruverslun sem og fyrir opinberar stofnanir sem sýni að mati félagsins að höfundar tillagnanna hafi lítinn skilning á rekstri fyrirtækja og stjórnsýslunnar.

„Tillögur starfshópsins stefna okkur aftur djúpt inn í vörugjaldafrumskóginn, sem við vorum nýbúin að koma okkur út úr til mikils léttis jafnt fyrir verzlunina og opinberar eftirlitsstofnanir. Eftirlit með skattlagningu verður umfangsmeira, torveldara og dýrara nái tillögurnar fram að ganga. Að mati FA er þetta afskaplega misráðið og illa rökstutt,“ segir í bréfi FA til ráðherra.