*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 13. ágúst 2019 19:00

Ekki heimilt að mismuna

Seðlabankinn hefur ekki umboð til „að útdeila réttlæti í samfélaginu” segir í nýrri skýrslu bankans.

Ritstjórn
Seðlabankinn sætti töluverðri gagnrýni fyrir gjaldeyrisútboð sín á árunum 2011-2015.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þjóðhagslegur ávinningur af gjaldeyrisútboðum Seðlabankans vega þyngra á vogarskálunum en þau neikvæðu hliðaráhrif sem af aðgerðunum kunna að hafa hlotist. Þetta er niðurstaðan í nýrri skýrslu sem Seðlabanki Íslands birti í dag um gjaldeyrisútboð, fjárfestingar- og ríkisbréfaleið, sem bankinn efndi til á árunum 2011-2015. 

Markmiðið með útboðunum var að lækka stöðu aflandskróna og greiða þannig fyrir losun fjármagnshafta. Bankinn sætti töluverðri gagnrýni vegna málsins og helst beindust spjótin að svokallaðri fjárfestingaleið sem var m.a. gagnrýnt fyrir að auka á misskiptingu og fyrir að færa auð til auðkýfinga á lágskattasvæðum. Fjallað er um þessa gagnrýni í skýrlunni og fallist á að spurningin, um hvort útboðin hafi skekkt skiptingu tekna og auð, eigi rétt á sér þótt henni sé ekki auðsvarað.   

Fyrst er staldrað við spurninguna um hvort aflandskrónueigendur hafi fengið ósanngjarnt forskot á innlenda aðila til kaupa á gjaldeyri. Hér telur bankinn rétt að hafa í huga að aflandskrónueigendur greiddu fyrir þann forgang sem þeir fengu töluvert dýru verði. „Gjaldið sem aflandskrónueigendurnir greiddu fyrir forganginn fólst í muninum á milli innlends millibankagengis, þ.e.a.s. gengis sem bankar taka mið af þegar þeir selja viðskiptavinum sínum gjaldeyri til kaupa á erlendri vöru og þjónustu, og útboðsgengis sem eigendur aflandskróna gátu keypt erlendan gjaldeyri á í skiptum fyrir krónur. Ólíklegt má telja að eftirspurn innlendra aðila eftir erlendum gjaldeyri á útboðsgenginu hefði orðið mikil, þótt þeim hefði verið boðin þátttaka,” segir í skýrslunni. 

„Kjarni málsins er sá, að fyrst og fremst var horft til hinna þjóðhagslegu hagsmuna af því að losna við þá eigendur auðseljanlegra krónueigna sem líklegastir væru til að selja þær fyrir gjaldeyri um leið og möguleikinn til þess opnaðist. Útboðin breyttu m.ö.o samsetningu fjárfestahópsins þannig að eftir stóðu fjárfestar sem síður voru líklegir til að selja á mjög lágu gengi. Þannig stuðluðu þau að þjóðhagslegum stöðugleika.”

Næst er leitast við að svara gagnrýninni um að bankinn hafi ekki beitt sér gegn þátttöku aðila sem af ýmsum ástæðum voru taldir óæskilegir fjárfestar og því ekki verðugir þess að hagnast á viðskiptum undir handarjaðri Seðlabankans. Hér ber bankinn því við að umboð hans byggi á því að vinna að ákveðnum þjóðhagslegum markmiðum sem séu fyrst og fremst stöðugleiki verðlags og fjármálakerfisins. 

„Að útdeila réttlæti í samfélaginu, með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra; er utan þess umboðs sem bankanum var fengið með lögum, og er í raun úrlausnarefni stjórnmálanna en ekki Seðlabankans. Önnur stjórnvöld og stofnanir hafa hlutverki að gegna við að framfylgja lögum landsins, m.a. Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, lögregla, saksóknarar og svo dómstólar sem endanlega kveða á um sekt manna og réttarstöðu þeirra gagnvart lögum og stjórnvöldum,” segir ennfremur í skýrslu bankans.