Michel Barnier, yfirmaður samninganefndar ESB um útgöngu Bretlands sagði á föstudag að í útgönguáætlun Theresu May væri að finna ágætar tillögur, en lykilþættir hennar brytu í bága við hugmyndir leiðtoga Evrópusambandsins um útgönguna. Hann sagði hættu á að áætlunin græfi undan sam-evrópskum markaði sambandsins. Wall Street Journal greinir frá .

Útganga Breta úr Evrópusambandinu mun taka gildi þann 29. mars á næsta ári. Talsmenn sambandsins segja aðeins um þrjá mánuði til stefnu til að komast að samkomulagi um skilmála útgöngunnar. Ef samningar nást ekki munu viðskipti milli Bretlands og ESB raskast mikið, en bæði þjóðþing Bretlands og Evrópuþingið munu þurfa að samþykkja endanlegan samning, nái samninganefndirnar saman.

May er í ansi erfiðri stöðu; hún hefur mátt sæta töluverðri gagnrýni bæði frá evrópusinnum og útgöngusinnum innan flokks síns, íhaldsflokksins, og staða hennar innan flokksins veikist í sífellu. Ljóst er að afstaða Brussel mun ekki létta henni róðurinn.