Stýrihópur um málefni Reykjavíkurflugvallar, sem nefndur hefur verið Rögnunefndin, skilaði skýrslu sinni um valkosti á nýjum innlandsflugvelli í gær. Friðrik Pálsson, annar tveggja formanna Hjartans í Vatnsmýri, segir í samtali við Morgunblaðið að samtökin séu ánægð með niðurstöður hópsins um málefni Reykjavíkurflugvallar.

Friðrik vekur þar athygli á tillögu nefndarinnar að leitað verði samkomulags um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan nauðsynlegur undirbúningur að öðrum flugvelli og eftir atvikum framkvæmdir fari fram. Hann segir Hjartað í Vatnsmýri hafa krafist þess að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri yrði í óbreyttri mynd, þar til annar flötur yrði kominn á innanlandsflugið.

„Ég skil það [niðurstöður nefndarinnar] þannig að það sé í höndum ráðherra og borgarinnar að tryggja að svo verði, völlurinn fái að vera þar í friði þar til önnur lausn verði fundin og byggð,“ segir Friðrik við Morgunblaðið.

Stýrihópurinn segir Hvassahraun besta kostinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll. Reynir Einarsson, yfirkennari hjá Flugskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að flugvöllur í hrauni sé hættulegur. Ryðja þurfi gríðarstór öryggissvæði sem hann segir að gangi illa upp.