*

miðvikudagur, 21. október 2020
Innlent 21. mars 2020 16:02

Ekki í mínum garði

Hægt hefur gengið að efla raforkuflutninga víða um land. Hagfræðingur segir marga vilji nýjar raflínur en bara ekki í sínu nágrenni.

Ingvar Haraldsson
Aðrir ljósmyndarar

Landvernd og Landsnet fagna bæði hugmyndum um einföldun á leyfisveitingakerfi við lagningu raflína. Átakshópur á vegum stjórnvalda kynnti í lok febrúar tillögur með það að markmiði að reyna að hindra að sambærilegt tjón og varð í óveðrinu í desember endurtæki sig. Alls lagði starfshópurinn til 540 aðgerðir, sem náðu til orkumála, samgangna og almannavarna.

„Okkur líst vel á tillögurnar en við gerum okkur grein fyrir því að það getur verið erfitt og tafsamt að breyta kerfinu. Fram undan er mikil vinna við að klára þessar tillögur og koma þeim í framkvæmd,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Átakshópurinn benti á að þrátt fyrir tilraunir til einföldunar á leyfisveitingarkerfinu á síðustu árum hafi þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir við að koma upp nýjum raflínum í sumum tilfellum tekið meira en áratug.

Fjárfestingar Landsnets undanfarin ár í raforkudreifikerfinu hafa numið um helmingi eða minna af fjárfestingaráætlun hvers árs vegna tafa við leyfisveitingar. Eitt af því sem stöðvað hefur framkvæmdir er hve flókið hefur reynst að leggja raflínur um fleiri en eitt sveitarfélag. Átakshópurinn vill að hægt verði að skipa sérstaka stjórnsýslunefnd þegar leggja á rafstrengi yfir sveitarfélagamörk sem meðal annars yrði skipuð fulltrúum allra sveitarfélaga sem raflínan á að liggja um. Markmiðið er að skapa eina sameiginlega ásýnd og samskiptaleið (e. one-stop-shop) gagnvart framkvæmdaaðila, almenningi og hagsmunaaðilum.

Vilja raflínur en ekki nálægt sér

Maður hefur vissa samúð með sjónarmiðum Landsnets,“ segir Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og prófessor í umhverfisog auðlindahagfræði. „Það hefur verið alveg ótrúleg tregða til að heimila þeim að ráðast í framkvæmdir sem allir eru sammála um að séu nauðsynlegar.“

Daði segir að viðbrögðin séu oft á þá leið að einstaklingar séu fylgjandi uppbyggingu raforkudreifikerfisins en vilji bara ekki að hún eigi sér stað of nálægt þeim. Hugtakið lykti af því sem nefnt hefur verið á ensku NYMBI eða „not in my back yard“ sem mætti þýða sem „ekki í mínum garði“. „Jú, við þurfum örugglega raforkuöryggi en ég vil ekki rafmagnslínu í gegnum garðinn hjá mér. Svo verður fólk ósátt þegar þegar verður rafmagnslaust,“ segir Daði. Hagsmunir samfélagsins af uppbyggingu raforkukerfis séu í mörgum tilfellum meiri en einstaklinga sem ekki vilji hafa raflínur í nágrenni við sig.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: Landsnet Landvernd innviðir raforkumál