Ætla mætti að samkeppnin við stórverslanirnar hefði sett strik í reikning Melabúðarinnar, einkum undanfarin misseri þegar fjöldi nýrra verslana hefur opnað á Granda, ekki langt frá henni. Pétur Alan Guðmundsson, sem rekur Melabúðina með Friðrik bróður sínum, segir svo þó ekki vera. „Við erum öðruvísi verslun og í raun erum við ekki í samkeppni við lágvöruverðsverslanirnar. Þær eru í samkeppni hver við aðra. Einhvern tímann opnaði svona verslun ekki langt frá okkur og heildsalar sögðu okkur að áhrifin hefðu annars vegar verið þau að verslun dróst saman hjá öðrum sambærilegum verslunum í hverfinu og að veltan hefði aukist hjá okkur. En að sjálfsögðu erum við viðbúnir öllu.“

Hann dregur þó ekki dul á að það fylgja því ókostir að vera lítill í þessu umhverfi. „Við fáum ekki sömu magnafslætti og stóru verslanirnar og getum því ekki keppt við þær í verði þótt við reynum að vera samkeppnisfærir. Þess vegna leggjum við svo mikla áherslu á gæði og þjónustu. Þar getum við haft betur. Verðið hjá okkur er ekki hærra vegna þess að við leggjum meira á vöruna en aðrir, en munurinn fer minnkandi á milli okkar og keðjanna sem þurfa að skila arði til eigenda sinna í meiri mæli en áður eins og fram hefur komið hjá fjölmiðlum.“

Það segir líka sína sögu að samtök verslana sem Melabúðin tilheyrir, Þín verslun, hafa litið bjartari daga. „Þegar mest lét, fyrir svona fimmtán til tuttugu árum, voru 29 fyrirtæki í samtökunum, en núna eru verslanirnar fjórar eftir. Aðrir hafa verið keyptir af stóru keðjunum eða lokað.“

Ítarlegt við Friðrik og Pétur er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .