Í rekstrarreikningi Gagnaveitu Reykjavíkur (GR), sem fjallað var um í Viðskiptablaðinu í gær, er sundurliðun á tekju- eða kostnaðarliðum félagsins hvergi að finna. EBIDTA fyrirtækisins er aðeins gefin upp, en hún var neikvæð um rúmar 48 milljónir króna á síðasta ári. Sökum gengismunar skilar félagið þó hagnaði upp á 119 milljónir á síðasta ári. GR skilar inn ársreikningi á grundvelli undanþágu í ársreikningalögum, sem veitir heimild til að skila samandregnum rekstrarreikningi.

Hins vegar segir í úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í nóvember 2006 að reikningsskil GR „skulu gerð í samræmi við meginreglur laga um ársreikninga og skulu þau liggja fyrir með sambærilegum hætti og almennt gerist." Ekki reyndist mögulegt að ná tali af framkvæmdastjóra GR, Birgi Rafni Þráinssyni, við vinnslu fréttarinnar.

Síminn er sá aðili sem kærði reikningsskil GR, eða öllu heldur skort á þeim, til PFS. Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Skipta, segir reikningsskil GR í beinni andstöðu við úrskurð PFS: „Án þess að hafa haft tök á því að kanna hvort undanþágureglan eigi yfirhöfuð við er í það minnsta ljóst að reikningsskilin eru ekki í samræmi við meginreglur ársreikningalaga og af þeirri ástæðu í beinni andstöðu við fyrirmæli PFS."

Páll gagnrýnir einnig upplýsingagjöf GR: „Þess utan er ákaflega sérkennilegt að opinbert hlutafélag kjósi að haga upplýsingagjöf sinni með þessum hætti. Okkur sýnist því miður full ástæða til að fylgja fyrra erindi Símans eftir og fara þess á leit að PFS tryggi jafna samkeppnisstöðu."

Brjóta úrskurð um lánveitingar

Í úrskurði PFS segir að öll lán GR skuli tekin frá þriðja aðila en Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sé heimilt að hafa milligöngu um lántökur. Þar segir jafnframt: „Slíkt lánsfé skal endurlánað Gagnaveitunni á sömu vaxtakjörum og ætla má að óskyldur aðili fengi á lánamarkaði. Gerðir skulu sérstakir samningar milli OR og Gagnaveitunnar í samræmi við þá skilmála sem almennt gilda á markaði, t.d. um afborganir, lánstíma, mögulegar skuldbreytingar og afskriftir."  Páll segir stinga í stúf við úrskurðinn að OR sé eini lánveitandi GR: „ Í úrskurði PFS segir að öll ný lán GR skuli vera tekin frá þriðja aðila. Sama á við um vaxtakjör, sem eiga að vera eins og á milli óskyldra aðila og á markaðsvöxtum. Okkur sýnast kjörin vera langt frá markaðsvöxtum miðað við rekstraráhættu. Ef OR er upphaflegur lánveitandi og um ný lán er að ræða, er það einnig brot á ákvörðun PFS.

Það litla sem ráða má af hinum reikningnum er að OR hefur á árinu 2007 veitt GR langtímalán upp á 3,5 milljarða og sett inn nýtt hlutafé upp á 2 milljarða," segir Páll. „Handbært fé frá rekstri er í árslok 2007 einungis 10 milljónir, auk þess sem gengisþróun á árinu 2008 hefur verið afar óhagstæð. Að líkindum verður enn og aftur leitað til OR um ný úrræði, hafi það ekki þegar verið gert."