Tap Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi nam 34 milljónum dollara eða því sem nemur um 4,2 milljörðum íslenskra króna samanborið við 26 milljón dollara tap á sama tímabili í fyrra en félagið birti uppgjör fyrir tímabilið á fimmtudeginum fyrir verslunarmannahelgi. Tap félagsins á síðustu fjórum ársfjórðungum nemur nú um 84,7 milljónum dollara, jafnvirði 10,3 milljarða króna. Fara þarf aftur til ársins 2009 til að finna viðlíka tap hjá félaginu yfir tólf mánaða tímabil.

Óhætt er að segja að afkoma Icelandair á fjórðungnum hafi ekki verið í takt við væntingar greiningaraðila en meðaltal þriggja afkomuspáa sem Viðskiptablaðið tók saman gerði ráð fyrir að tap á ársfjórðungnum myndi nema 12,3 milljónum dollara sem er frávik frá afkomuspám upp á 21,7 milljónir dollara. Þá ollu tekjur félagsins á fjórðungnum einnig vonbrigðum en þær námu 403 milljónum dollara og jukust um 1% milli ára. Meðaltal greiningaraðila gerði hins vegar ráð fyrir tekjum upp á 434,5 milljónir dollara sem er 31,5 milljónum hærra en raun varð.

Rekstrartap félagsins (EBIT) nam 24 milljónum dollara og jókst um fjórar milljónir dollara frá sama tímabili í fyrra. Félagið birti í fyrsta sinn mat á kostnaði og tekjutapi vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX véla félagsins og nam áhrif þess á rekstarhagnað 50 milljónum dollara á öðrum ársfjórðungi. Sé rekstrarhagnaður leiðréttur fyrir kyrrsetningunni nam hann 26 milljónum dollara á fjórðungum sem myndi þýða 46 milljón dollara viðsnúning frá sama tímabili í fyrra. Rekstrartap á fjórðungnum var, líkt og afkoma og tekjur, töluvert meira en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir en meðaltal þeirra gerði ráð fyrir 7,8 milljóna rekstartapi og var frávikið frá meðaltalinu því 16,2 milljónir dollara.

Icelandair birti einnig í fyrsta sinn á árinu afkomuspá fyrir árið 2019. Stjórnendur félagins gera ráð fyrir að rekstrarhagnaður án áhrifa af kyrrsetningu MAX vélanna verði á bilinu 50– 70 milljónir dollara sem er svipuð upphæð og árið 2017 þegar rekstarhagnaður nam tæpum 50 milljónum dollara. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að kyrrsetning MAX vélanna liggur þungt á félaginu en í uppgjörinu kom fram að áætluð áhrif hennar á rekstarhagnað nemi um 140 milljónum dollara fyrir árið í ár auk þess sem forsvarsmenn félagsins sögðu á uppgjörsfundi að áhrifin á heildarafkomu væru enn meiri. Þegar kostnaður vegna kyrrsetningarinnar er tekinn með í reikninginn hljóðar afkomuspá ársins því upp á að rekstrartap verði á bilinu 70–90 milljónir dollara.

Sé litið til þess hve langt uppgjörið var frá væntingum greiningaraðila kemur ekki mikið á óvart að markaðurinn hafi tekið illa í það. Gengi hlutabréfa Icelandair lækkaði um 9,5% á föstudag í 244 milljóna króna viðskiptum og hefur ekki verið lægra frá því að WOW air varð gjaldþrota í lok mars. Þá var þetta í fimmta skiptið af síðustu tíu sem hlutabréfaverð Icelandair hreyfist um meira en 7,5% í kjölfar uppgjörs. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 8,1% í kjölfar fyrsta ársfjórðungs 2017 en frá þeim tíma hefur gengi bréfa félagsins fjórum sinnum lækkað um meira 7,5% í kjölfar uppgjörs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .