Wyndeham Press Group, sem er dótturfélag Daybreak Acquisitions Ltd. sem FL Group og Landsbankans eru meirihlutaeigendur í, hefur tilkynnt að starfsemi tveggja dótturfélaga Wyndeham í Luton verði lögð niður, að því er kemur fram í frétt Print Week.

Framkvæmdarstjóri Wyndeham, Paul Utting, segir að sérlega slæm markaðsskilyrði séu ástæða lokananna á einingunum, sem heita Westway og Blacketts, en 92 starfsmenn Wyndeham munu missa störf sín vegna aðgerðanna.

Fyrirtækið hefur verið í hagræðingarferli síðan Dagsbrún keypti það í mars á síðasta ári og síðan FL Group og Landsbankinn keyptu meirihlutann í desember. Utting neitar því að eigendur fyrirtækisins séu ástæða breytinganna sem hafi orðið til að fjöldi starfsstöðva hefur verið lokað og umtalsverður fjöldi starfsfólks misst störf sín. "Við erum að bregðast við breyttu markaðsumhverfi og hafði það ferli raun og veru hafist áður en Dagsbrún keypti fyrirtækið," segir Utting.

Ef fer sem horfir mun Wyndeham hafa sagt upp um það bil 350 starfsmönnum á tæpu ári, en það er um 25% af starfmönnum fyrirtækisins sem starfa í framleiðslu, að því er kemur fram í fréttinni. Steve Sibbald, talsmaður Amicus stéttarfélagsins, segir uppsagnirnar dæmigerðar fyrir áhættufjárfesta, þeir hafi aðeins áhuga á afkomutölum og að hann sé í raun orðlaus vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur.

Í leiðara Print Week segir að uppsagnir Wyndeham séu auðvitað mjög slæmar fréttir fyrir starfsfólkið, en fyrirtækið verði traustara og betra að endurskipulagningu lokinni. Leiðarahöfundur veltir því fyrir sér hvað framtíðin beri í skauti sér hjá Wyndeham og bendir á að margir telji að nýju eigendurnir hyggist ekki staldra lengi við og séu aðeins að leitast eftir því að snúa rekstrinum við á sem skemmstum tíma til að skapa sér arð. Það séu þó aðeins vangaveltur og tíminn einn muni leiða í ljós hvað mun verða að endurskipulagningunni lokinni.

Ár í sögu Wyndham:

Mars 2006:  Dagsbrún kaupir Wyndeham.

Júní 2006: Starfsemi í Kent lokað, 70 starfsmenn missa vinnu sína.

Júlí 2006: Hubbard einingin lögð niður, 92 starfsmenn missa vinnu sína.

Ágúst 2006: Wyndeham sker niður 66 stöðugildi í Impact-einingunni.

Nóvember 2006: Hagnaður Wyndeham dregst verulega saman og Dagsbrún tilkynnir um að fyrirtækið verði sett í söluferli.

Desember 2006: FL Group og Landsbankinn kaupa 64% hlut í Wyndeham.

Janúar 2007: Wyndeham tilkynnir um hagræðingu sem verður til þess að starfsemi í Bow-starfsstöðinni er lokað, óstaðfest er hve margir misstu vinnu við það.

Apríl 2007: Tilkynnt um lokun starfsstöðvar í Luton, 92 starfsmenn munu missa vinnu sína