Eftir líflegan og grænan fyrsta viðskiptadag ársins í Kauphöll Nasdaq á Íslandi í gær, var rólegra yfir nýloknum viðskiptadegi. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,7 milljörðum króna og úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði lítillega í viðskiptum dagsins, eða um 0,1% og stendur fyrir vikið í 2.642,09 stigum.

Gengi hlutabréfa útgerðarfélagsins Brims hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,51% í 107 milljóna króna viðskiptum. Næst mest hækkaði gengi olíufélagsins Skeljungs, eða um 0,89% í 37 milljóna króna viðskiptum. Fyrr í dag var greint frá því að lífeyrissjóðir hefðu hafnað yfirtökutilboði Strengs, sem freistaði þess að taka yfir félagið og afskrá það af markaði. Fyrir skömmu var svo greint frá því að hluthafar sem áttu alls tæplega 3% hlut í félaginu hafi tekið tilboðinu.

Mest lækkaði gengi fasteignafélagsins Regins á nýloknum viðskiptadegi, eða um 1,7% í 177 milljóna króna viðskiptum. Fast á hæla Regins fylgdi Sýn með 1,66% lækkun í aðeins 7 milljóna króna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Arion banka, en alls nam heildarvelta viðskipta með bréf bankans 604 milljónum króna. Þrátt fyrir það stóð gengi bréfa bankans í stað.