Greining Íslandsbanka segir verulega lækkun íbúðaverðs milli mánaða vera stærstu tíðindi nýbirtrar desembermælingar Hagstofunnar. Greining Arion banka segir að á móti lækkuninni sem hafi komið eins og skipt væri um útvarpsstöð hafi komið hækkun flugfargjalda, matar og fatnaðar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur verulega hægt á hækkunum íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu en í nóvember lækkaði vísitala Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn frá árinu 2015.

Að mati Íslandsbanka, sem fram kemur í greiningu sem bankinn sendi frá sér, er 1,1% lækkun á reiknaðri húsaleigu milli mánaða í desember stórtíðindi, enda hafi hún ekki lækkað svo mikið milli mánaða síðan í október árið 2012. Segja þeir niðurstöðuna enn merkilegri því Hagstofan mæli meðaltal íbúðaverðs þriggja mánaða sem ætti að draga úr mánaðarsveiflum.

Misvísandi tölur um sérbýli í borginni

Lækkun vísitölu íbúðaverðs lækkaði um 3,2% á landsbyggðinni, en lækkunin á höfuðborgarsvæðinu náði samkvæmt tölum Hagstofunnar einungis til fjölbýla sem lækkuðu um 1,3%. Hins vegar hækkaði sérbýli um 1,2%.

Þrátt fyrir þetta segir bankinn að útlit sé fyrir að verðbólgutakturinn muni heldur aukast næstu mánuðina. Spáir bankinn 0,4 lækkun vísitölu neysluverðs í janúar, 0,7% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars og því muni verðbólgan mælast 2,4% í mars á næsta ári.

Undir verðbólgumarkmiði í fjögur ár

Segir Íslandsbanki að ef það gangi eftir geti Seðlabankinn haldið upp á fjögurra ára afmæli þess að verðbólga mælist undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Arion banki spáir eilítið meiri verðhjöðnun í janúar, eða 0,5% lækkun neysluverðsvísitölu, en sömu hækkunum í febrúar og mars. heildarspá þeirra fyrir mars er að verðbólgan verði í 2,3%.

Bendir Greining Arion banka á í sinni greiningu að næsta árið munu það sem þeir kalla k-in þrjú leika aðalhlutverkið, það er kjarasamningar, kaupverð húsnæðis og krónan sem öll séu samhangandi. Tekin verði ákvörðun um hvort rifta eigi kjarasamningum í febrúar, sem aftur mun draga úr líkum á lækkun vaxta og aukinn verðbólguþrýstingur auki þörf á að hægja á hækkunum á húsnæðisverði.