Svo virðist sem þegjandi samkomulag hafi verið á meðal frambjóðenda í síðustu þingkosningum að snerta ekki á stöðu ríkisfjármála. „Stjórnarflokkar voru kannski ekki öruggir um stöðuna og stjórnarandstæðingar voru ekki á því að láta umræðu um bága stöðu ríkissjóðs trufla málflutning sinn.Nú hefur fjármálaráðherra sagt að halli ársins verði álíka og í fyrra,“ segir Hagfræðideild Landsbankans í nýjasta hefti Hagsjár sinnar. Deildin segir ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ekki koma á óvart enda hafi Hagfræðideildin bent á að niðurstaðan yrði líklega á þeim nótum.

Fjárlagafrumvarp aldrei endanlegt

Hagfræðideildin rifjar upp í Hagsjá sinni að eitt meginmarkmið síðustu ríkisstjórnar var að minnka skuldsetningu og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Þessi markmið voru sett fram árið 2009. Bent er á að ríkissjóður þurfti að taka á sig miklar skuldir í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir aðhald við stjórn ríkisfjármála og lága vexti á ríkisbréfum í skjóli fjármagnshafta sé ríkissjóður nú í þeirri stöðu að u.þ.b. 15% tekna hans fari í vaxtagreiðslur. Til þess að hægt sé að hefja niðurgreiðslu skulda þarf að skapa verulegan afgang í rekstri ríkisins og leita annarra leiða eins og t.d. sölu eigna. Tafir hafa orðið á þeirri viðleitni. Í stað þess að heildarjöfnuður yrði jákvæður á árinu 2013 eins og upphaflega var stefnt að hafa áætlanir færst aftur um ár.

Þá er bent á að fjárlagafrumvarpið fyrir 2013 gerði upphaflega ráð fyrir halla á heildarjöfnuði upp á 2,8 milljarða króna. Í meðförum þingsins hækkaði þessi halli og var fjárlagafrumvarpið samþykkt með 3,7 milljarða króna halla. Nú stefni í mun meiri halla.

„Niðurstöðutala fjárlaga er langt frá því að vera endanleg. Það er viðtekin venja hér á landi að fjárlög halda ekki. Útgjaldaaukning frá fjárlagafrumvarpi til fjárlaga og svo til fjáraukalaga og endanlegs ríkisreiknings er oft verleg og niðurstaða versnar oftar en ekki,“ segir Hagfræðideild Landsbankans.

Hagsjá Landsbankans