Ben Dressler, sérfræðingur í notendahegðun hjá streymiþjónustunni Spotify, hélt erindi á ráðstefnu á vegum Creditinfo sem haldin var í síðustu viku. Ráðstefnan fjallaði um mikilvægi gagna við ákvarðanatöku í viðskiptum og ræddu þar fjölmargir sérfræðingar um nauðsyn þess að nýta gögn til að bæta samkeppnisforskot fyrirtækja.

Dressler starfar sem sérfræðingur í notendahegðun og í starfi sínu leitast hann við að betrumbæta streymiþjónustuna til að gera notendum hennar kleift að gera það sem þeir vilja og hvetja þá til að prófa nýja hluti. „Hlutverk mitt í þessu er að hjálpa okkur að skilja notendur okkar betur svo við getum tekið ákvarðanir sem betrumbæta upplifun þeirra,“ segir hann. „Við notum margvíslegar aðferðir til þess. Við framkvæmum kannanir til að skilja hvað viðskiptavinir okkar vilja frá okkur. Við greinum hvernig mismunandi hlutar af vörunni okkar eru notaðir og við bjóð­ um notendum á skrifstofur okkar til að prófa þróunarverkefni með þeim til að ganga úr skugga um að Spotify verði áfram einfalt og auðvelt í notkun.“

Spurður að því hversu mikilvæg gagnagreining sé fyrir fyrirtæki eins og Spotify segir Dressler að hún sé algjörlega lífsnauðsynleg. „Okkar markmið er að verða fyrirtæki sem grundvallar allar sínar ákvarðanir á gögnum,“ segir hann. „En ég verð samt að undirstrika það að skilgreining okkar á „gögnum“ er mjög víðtæk. Ljósmynd getur verið gagnapunktur, Twitter færsla getur verið gagnapunktur. Allt sem þú getur mælt og fylgst með eru gögn. Það sem er bæði erfitt og mikilvægt í því ljósi er að draga fram þessa gagnapunkta í réttu samhengi við hvern annan og skera úr um hversu mikilvægir og áreiðanlegir þeir eru. Til þess þarftu hæfileikaríka greinendur til að tengja saman punktana og varpa fram heildarmyndinni.“

Nánar er rætt við Dressler í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .