Fjármálaeftirlitið hefur ekki enn veitt samþykki sitt fyrir virkum eignarhlut FL Group í Tryggingamiðstöðinni en 29. október síðastliðinn gerði félagið öðrum hluthöfum yfirtökutilboð og óskaði eftir því í framhaldi málsins að fá að fara með virkan eignarhlut. FL Group fer með 84% hlutafjár í TM. Aðalfundur Tryggingamiðstöðvarinnar hefur verið settur á 3. mars næstkomandi.

Að sögn Júlíusar Þorfinnssonar, forstöðumanns samskiptasviðs FL Group, er þess vænst að heimild FME liggi fyrir innan skamms. Sagði hann það væntanlega vera dagsspursmál. FL Group hf. hafði tryggt sér 99,05% af heildarhlutafé félagsins að loknu tilboðstímabili yfirtökutilboðs 28. nóvember 2007. Fjöldi hluthafa 5. nóvember 2007 var 293.

Í kjölfar þess að FL Group eignaðist meirihluta í TM greindi félagið frá því að það hygðist innleysa hluti þeirra hluthafa sem eftir stæðu í samræmi við viðeigandi lagaákvæði, með það að markmiði að verða eini hluthafi TM. Var tekið fram að FL Group áskildi sér rétt til slíkrar innlausnar eftir að samþykki Fjármálaeftirlitsins lægi fyrir.

FL Group hyggst skrá TM af OMXI. Slík afskráning verður framkvæmd þegar það telst hentugt, eða slíkrar afskráningar er krafist af hálfu OMXI, en í síðasta lagi eftir að framkvæmd yfirtökutilboðs og hugsanlegrar innlausnar er lokið, sagði í tilkynningu FL Group í haust.

Á hluthafafundi TM., sem var haldinn 8. október 2007, var kjörin ný stjórn fyrirtækisins. Í henni sitja Gunnar Karl Guðmundsson, Jón Sigurðsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Þeir skipta með sér verkum þannig að Gunnar er formaður, Jón varaformaður og Þorsteinn Már meðstjórnandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er líklegt að breytingar verði á stjórn félagsins.

Hinn 1. júní 2007 sóttu félögin um heimild FME til að fara með allt að 39,9% eignarhlut í bankanum, sem kom í kjölfar hluthafasamkomulags þeirra og fól í sér samstarf um kjör stjórnarmanna.