Seðlabanki Íslands segir að eftirlit með peningaþvætti eða skattalagabrotum sé á annarra könnu, en bankinn muni upplýsa hlutaðeigandi yfirvöld komi vísbendingar um lögbrot fram við rannsókn gjaldeyriseftirlitsins. Þetta segir í svari Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins í tengslum við umræður á Alþingi í morgun um „óhreint fé“.

Fyrr í dag greindi Viðskiptablaðið frá fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um óhreint fé í umferð í íslensku bönkunum. Hann vitnaði til þess að Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hafi haft eftir ónafngreindum fyrrverandi seðlabankastjóra að ein af ástæðum þess að bankarnir starfi undir leyndarhjúpi frekar en fyrir opnum tjöldum sé sú að mikið af óhreinu fé er í umferð. Einar K. sagði að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, eigi að beita sér fyrir að Seðlabankinn rannsaki málið. Árni Páll tók undir mikilvægi þess að fara ofan í saumana á málinu og rannsaka það. Hann taldi þó ólíklegt að grundsemdirnar eigi við rök að styðjast.

Í svari Seðlabankans segir orðrétt: „Eftirlitsskylda Seðlabanka Íslands á þessu sviði lýtur einkum að brotum á gjaldeyrislögum. Eftirlit með peningaþvætti eða skattalagabrotum er á annarra könnu, en Seðlabankinn mun að sjálfsögðu upplýsa hlutaðeigandi yfirvöld komi vísbendingar um lögbrot („óhreint fé“) fram við rannsókn gjaldeyriseftirlitsins.“