*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 26. júlí 2015 15:25

Ekki langur aðdragandi að DV

Sigurður G. Guðjónsson telur að þegar fram líða stundir losi hann sig væntanlega við hlut sinn í DV.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður hefur utan lögmennskunnar vasast í viðskiptum, sér í lagi í fjölmiðlum. Hann tók sér svo frí frá lögmannsstörfum til að gegna starfi forstjóra Stöðvar 2 frá 2002 til 2004.

Kæmi til greina að taka þér aftur frí frá lögmannsstörfum og fara inn í viðskiptalífið?

„Ég hef alltaf verið með annan fótinn í einhvers konar rekstri. Eftir hrun settum ég og vinur minn Björgvin Þorsteinsson hæstaréttarlögmaður fyrstu regnbogasilungana í sjó í Dýrafirði. Það var grunnurinn að fyrirtækinu Dýrfiski, sem nú er orðið mjög stórt í eldi á regnbogasilungi og stendur fyrir meiri fjárfestingu í atvinnustarfsemi á Vestfjörðum en þekkst hefur um áraraðir. Við erum farnir út úr Dýrfiski í dag, en erum stoltir af þessu félagi sem ýtt var úr vör í upphafi hruns og án þess að til rekstrarins fengist í upphafi nokkurt lánsfé. Þar áður hafði ég komið að stofnun Blaðsins og einnig Hive, internetfyrirtækisins sem bauð fyrst íslenskra fyrirtækja upp á frítt niðurhal. Mér finnst ofboðslega gaman að reyna að búa eitthvað til, en ég er nú orðinn 64 ára þannig að ég held að ég fari ekki að gera eitthvað annað núna en að sinna lögmennskunni,“ segir Sigurður.

Þú ákvaðst þó að fara inn í DV fyir jól.

„Það eru svo margar tilviljanir í lífinu. Það var ekki langur aðdragandi að aðkomu minni að DV. Gamall skjólstæðingur sem hafði lánað félaginu peninga bað mig um að hjálpa sér við að reyna að ná tökum á stjórn DV, samkvæmt þeim leikreglum sem átti að reka félagið eftir. Það tókst og endaði með því að þar er ég í dag, þó svo ég ætlaði mér það ekki í upphafi. Ég ætla ekki að vera minnihlutaeigandi í fjölmiðli þar sem það er óþægilegt að vera bæði í rekstri fjölmiðla og sjálfstætt starfandi í lögmennsku. Ef fjallað er um mál sem ég er með í fjölmiðlinum sem ég á í heldur fólk að ég hafi áhrif á ritstjórnina, t.d. kallað á blaðamennina til að mæta í réttarsal, ef ég er þar. Vilji maður vera í fjölmiðlum og rekstri þeirra er auðvitað best að eiga þá með húð og hári og fá að ráða. Slíkt á hins vegar ekki upp á pallborðið í fjölmiðlaumhverfi dagsins í dag sem lýtur ritstjórnarlegu eftirliti opinberrar stjórnsýslunefndar, sem hefur svo mikið vald að hún getur ákveðið mörk tjáningarfrelsis sem samkvæmt stjórnarskrá er þó aðeins á valdi dómstóla,“ segir Sigurður. Hann telur að þegar fram líða stundir losi hann sig væntanlega við hlut sinn í DV.

Ítarlegt viðtal við Sigurð G. Guðjónsson lögmann er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.