Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, brýnir starfsmenn Icelandair til að gefa ekki eftir réttindi sín í viðræðum við Icelandair.  „Ekki láta kúga ykkur út í stórfelldar launalækkanir og afsal réttinda. Stjórnendur koma og fara en starfsfólkið er og verður alltaf grunnstoð fyrirtækisins,“ segir Ragnar Þór í færslu á Facebook.

Icelandair rær lífróður þessa dagana. Mest allt áætlunarflug liggur niðri og félagið reynir að endursemja við starfsfólk um lægri kjör í aðdraganda hluthafafundar 22. maí. Þar á að óska á eftir heimild til að fara í nær 30 milljarða króna hlutafjáraukningu. Stjórnvöld hafa veitt vilyrði fyrir lánveitingu eða ábyrgðum lána gangi það eftir.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi til starfsmanna félagsins um helgina að starfsmennirnir væru helsta fyrirstaða fjármöngun tækist. Samningaviðræður við flugfreyjur og flugmenn gengju hægt en væru nauðsynlegir til að lækka kostnað félagsins til jafns við keppinauta og þannig tryggja samkeppnishæfni félagsins. Icelandair náði þó samningum við flugvirkja í gær út árið 2025.

Við ummæli Boga reis verkalýðshreyfingin upp á afturlappirnar. Ragnar Þór svaraði Boga og sagði frekar ætti að horfa til rangra ákvarðana stjórnenda félagsins en til starfsmannanna. Þá fullyrti Ragnar að innan stjórna lífeyrissjóða hefði komið til umræðu að gera skilyrði fyrir þátttöku í hlutafjárútboði að stjórn og stjórnendum félagsins yrði skipt út.

Starfsfólk Icelandair í fremstu víglínu

Ragnar Þór segir að starfsmenn ættu að spyrja hvaða ákvarðanir yfirmenn þeirra hefðu tekið. „Spyrjið stjórnendur Icelandair út í samkeppnishæfni út frá vaxtaberandi skuldum félagsins eða ávinning félagsins á launalækkunum samanborið við tug milljarða tap á afleiðusamningum með olíu. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að standa í lappirnar og verja réttindin. Við erum í raunverulegu stríði um lífskjör okkar og framtíð. Starfsfólk Icelandair stendur nú í fremstu víglínu í þessu stríði. Ekki til að bjarga sínu eigin skinni heldur fyrir okkur öll,“ segir Ragnar Þór við starfsmenn Icelandair.

„Fyrir alla muni látum ekki kúga okkur eða beygja til hlýðni með hræðsluáróðri því það verður ekkert flugfélag án ykkar og ekki gæfuleg framtíð ef stjórnendur Icelandair ráða för. Án vinnandi handa, okkar, geta fyrirtækin ekki starfað. Ég er svo sannarlega til í að taka þennan slag með ykkur ef þarf.“

Banna flugfélögum að fljúga til Íslands?

Ragnar Þór veltir einnig upp hvort endurreisa eigi vinnumarkaðinn á sömu forsendum og áður eftir heimsfaraldurinn. „Hvað ef samkeppnishæfnin þýðir að launakjörin fari á par við það sem gerist hjá svívirðilegustu lággjaldaflugfélögunum sem stunda gerviverktöku, skattaundanskot, stórfelld brot á kjarasamningum og mannréttindum og beinlínis þrælkun á starfsfólki sem er svo algjörlega ótryggt í vinnu Öllu er svo úthýst til landa sem gera litlar sem engar kröfur um skatta á stórfyrirtæki eða velferð starfsfólks,“ veltir Ragnar Þór upp.

„Er þetta leiðin sem við viljum fara? Eigum við bara að sætta okkur við það að endurreisnin verði með þeim hætti að hér geti fyrirtækin almennt krafist þess að við afsölum okkur réttindum sem hafa tekið áratugi að ná fram?“ Og eigum við bara að sætta okkur við að hér geti fyrirtækin farið fram á að starfsfólk fari almennt á strípaða taxta og afsali sér réttindum í nafni samkeppnishæfni? Samkeppni um hvað? Verstu lífsgæðin fyrir mestu vinnuna? spyr formaður VR.

Ragnar Þór bætir við að fremur ætti að koma í veg fyrir að flugfélögum að fljúga til landsins eða selja vörur á Íslandi sem sem ekki fari að kjarasamningum og virði ekki grundvallarmannréttindi.