„Ég get ekki gefið upp neinar tölur. En þetta er mjög stór samningur á íslenskan mælikvarða,“ segir Atli Freyr Sveinsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar. Eins og frá var greint í morgun samdi Icelandair við auglýsingastofuna um áframhaldandi samstarf. Samningurinn tekur til markaðsstarfs hér á landi auk markaðs- og auglýsingastarfs erlendis, s.s. í Evrópu, Norður-Ameríku og ýmsum fjarlægari löndum.

Til að gefa einhverja mynd af stærð samningsins fyrir Íslensku auglýsingastofuna þá vinna átta manns af um fimmtíu hjá fyrirtækinu einvörðungu fyrir Icelandair. Þeir eru jafnframt studdir af öðru starfsfólki.

Atli segir fyrirtækin hafa unnið saman í 22 ár eða frá því því síðla árs 1990.

„Það er er langur tími á þessum markaði en ekki einsdæmi á alheimsvísu. En að sama skapi er það ekki lengd samstarfsins sem skiptir máli heldur árangurinn,“ segir Atli.