„Í lok júlí verður ekki lengur notast við kynferðislegt markaðsefni, og gildir það meðal annars um ljósmyndir í verslunum, gjafabréfum og innkaupapokum," segir í tilkynningu frá bandarísku tískukeðjunni Abercrombie & Fitch.

Markaðsstefna fyrirtækisins hefur þótt umdeild, meðal annars fyrir þær sakir að keðjan hefur notast við unga, stælta menn sem hafa jafnan þótt vel af guði gerðir hvað útlit snertir. Þessi háttur heyrir nú sögunni til í verslunum Abercrombie & Fitch, en meitlaðir magavöðvar þeirra verða ekki lengur til sýnis fyrir gesti og gangandi.

„Við munum ekki umbera mismunun á grundvelli líkamsgerðar eða líkamlegrar fegurðar og munum ekki þola mismunun  við ráðningar sem ekki eru í samræmi við lög," segir í bréfi sem vörumerkjastjóri keðjunnar, Christos Angelides, sendi í dag á alla verslunarstjóra í verslunum Abercrombie & Fitch.

Höfuðslæður nú í lagi

Abercrombie & Fitch hefur átt á brattann að sækja fjárhagslega og sætt haðri gagnrýni fyrir of kynferðislega markaðssetningu. Þá sætti keðjan sérstaklega harðri gagnrýni fyrir að ráða ekki múslimska konu af þeirri ástæðu að höfuðslæða hennar samræmdist ekki útlitsstefnu fyrirtækisins . Málið kom fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.

Fyrirtækið segist nú „gera ráð fyrir fötlun og einlægum trúarskoðunum starfsfólks," að því er segir í nýrri ráðningarstefnu. Forbes greinir frá.