Tesla á Íslandi hækkaði á dögunum verð bíla sinna í kjölfar umtalsverðrar gengisveikingar krónunnar, en hækkanirnar voru afar mismiklar milli tegunda. Ódýrasta gerðin – Model 3 Standard Range Plus (SR+) – hækkaði um 560 þúsund eða rúm 11%. Aðrar gerðir hækkuðu ýmist mun minna eða ekki neitt.

Model 3 Long Range hækkaði aðeins um 240 þúsund krónur. Dýrasta útgáfa Model 3, Performance, hækkaði um 310 þúsund. Eldri og dýrari gerðirnar – Model S og Model X – hafa ekki hækkað.

Model 3
Model 3
© vb.is (vb.is)

Verðin eru án virðisaukaskatts, en fyrstu 6 milljónir króna af kaupverði rafbíla eru undanþegnar virðisaukaskatti, sem hækkar í 6,5 milljónir nú í sumar, og því lítill eða enginn skattur greiddur af Model 3 bílunum. Til viðbótar bætist svo 132 þúsund króna afhendingar- og lokaskoðunargjald við alla bíla, en hvorki það né verð aukabúnaðar hefur hækkað.

Áfram ódýrari en í heimalandinu
Séu verðin hér borin saman við heimalandið, Bandaríkin, eru bílarnir áfram ódýrari en þar, enda hefur krónan gefið þónokkuð eftir frá því að kórónufaraldurinn hófst. Frá því að Tesla opnaði starfsstöð sína hér á landi í september síðastliðnum hefur gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal hækkað úr 126 krónum í 148.

SR+ fæst þar á 40 þúsund dali, Long Range á 49 þúsund og Performance á 57 þúsund. Allir voru þeir ódýrari hér á landi en þar, en litlu sem engu munaði þó á SR+. Í dag munar öllu meira á þeim. SR+ kostar nú rúmum 300 þúsund krónum meira í Bandaríkjunum, Long Range heilum 945 þúsund krónum meira, og Performance um 1.250 þúsund meira.

„Gefa okkur afslátt af dýrari bílunum“
Jóhann G. Ólafsson, formaður Rafbílasambandsins, segir að svo virðist sem Tesla sé einfaldlega að taka á sig gengistapið að mestu leyti. „Jafnvel hækkun ódýrasta bílsins, sem er sú mesta, nær ekki að bæta upp fyrir veikingu krónunnar. Það má í raun segja að þeir séu hreinlega að gefa okkur afslátt af dýrari bílunum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu og horfur Icelandair og kjarasamninga þess við flugfólk
  • Nýstárleg lausn til að tryggja að börn tapi ekki of mikið úr námi vegna verkfalla og veirufaraldurs
  • Sagt er frá verðhækkun Tesla á Íslandi, sem er mun minni en gengisveikingin
  • Forstjóri flugfélagsins Ernis setur spurningamerki við ríkisstuðning helsta samkeppnisaðilans
  • Aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins segir ríkið í dauðafæri til að fjárfesta í innviðum
  • Harpa Vífilsdóttir, nýr fjármálastjóri Valitor, er tekin tali
  • Framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar segir hið opinbera tregt til raforkuútboða
  • Drög að markaðsgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunar reifuð
  • Týr skrifar um heimsfaraldurinn og alþjóðamál
  • Óðinn skrifar um ferðaþjónustuna