Stjórnendur samfélagsmiðilsins Facebook hafa ákveðið að hætta að gefa netverjum kost á því að senda vinum sínum í raunheimi gjafir í gegnum síðuna. Boðið hefur verið upp á þennan möguleika í tæpt ár. Blaðamaður hjá bandaríska dagblaðinu Forbes segir svo til enga hafa tekið eftir þessari breytingu enda fáir nýtt sér þetta til að gera vel við vini sína.

Hann bendir á að 80% gjafanna hafi verið rafræn gjafakort á borð kaffi og með því hjá Starbucks, inneign í netverslunum og í álíka búðum.

Blaðamaðurinn segir að í raun hafi þessi möguleiki Facebook sem átti að gera netverjum kleift að vera góðir við vini sína frekar pirrað þá en hitt enda hafi Facebook endalaust verið að senda þeim áminningu um að senda hinum og þessum eitthvað. Fáir hafi því nýtt sér þetta.