Áslaug Björgvinsdóttir gekk inn í eigendahóp LOGOS lögmannsstofu um áramótin eftir að hafa starfað í tíu ár á stofunni. Að loknu stúdentsprófi frá Kvennaskólanum fór hún í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, eftir að hafa upphaflega stefnt á læknisfræði, og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu vorið 2007, í fyrsta árganginum sem lagadeild HR útskrifaði. Hún byrjaði að vinna á LOGOS á fimmta ári í lagadeildinni og hóf störf sem fulltrúi á stofunni strax eftir útskrift. Þegar hún hafði starfað á stofunni í fjögur ár hélt hún til Stokkhólms í framhaldsnám þar sem hún tók LLM gráðu í evrópskum hugverkarétti.

„Ég er mjög þakklát fyrir þetta ár okkar í Stokkhólmi sem gerði mikið fyrir okkar fjögurra manna kjarnafjölskyldu,“ segir Áslaug. Hún var búin að skipuleggja námið samhliða barneignum, því planið var að eiga seinna barnið um haustið 2011 og svo átti námið að hefjast í janúar 2012. Um vorið 2011 ákvað háskólinn hins vegar að hefja námið fyrr, eða í ágúst.

„Ég byrjaði því kasólétt í náminu og flutti fyrirlestra í skólanum komin 41 viku á leið og var svo mætt aftur í skólann þegar stelpan var einungis átta daga gömul. Maðurinn minn fylgdi mér í skólann og hann var með stelpuna á meðan ég var í tímum og svo kom ég og gaf henni á milli kennslustunda.“

Líkt og áður segir hefur Áslaug sérhæft sig í hugverkarétti sem og upplýsingatæknirétti, en sú þekking hefur nýst afar vel að hennar sögn.

„Fram undan eru þær mestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöf í tvo áratugi. Eftir einungis eitt ár, eða í maí 2018, mun taka gildi nýtt regluverk sem mun hafa áhrif á öll fyrirtæki og stofnanir sem hafa með höndum vinnslu persónuupplýsinga,“ segir Áslaug. Í raun sé um að ræða nær öll fyrirtæki og stofnanir, en regluverkið leggur töluverðar auknar skyldur á þá aðila og þeir þurfa því að undirbúa sig vel fyrir þær miklu breytingar sem fram undan eru. Stór hluti af starfi Áslaugar felst í að aðstoða við þann undirbúning.

Reynir að halda laugardögum heilögum

Áslaug viðurkennir að leggja þurfi hart að sér til að verða meðeigandi hjá LOGOS, stærstu lögfræðistofu Íslands. „LOGOS gerir töluverðar kröfur til starfsfólks og kröfur innan eigendahópsins eru ekki minni, enda gengur þetta allt út á að veita framúrskarandi þjónustu. Það er því ekkert annað í boði en að leggja sig 100% fram en þetta er umhverfi sem hentar mér vel. Ég lít á það sem forréttindi að ganga inn í þennan flotta hóp og saman myndum við sterka heild,“ segir Áslaug. Hún viðurkennir að í þessu starfi geti það verið áskorun að finna jafnvægi á milli vinnu og einkalífsins.

„Það getur verið áskorun og gengur misvel en almennt er þetta í nokkuð góðu jafnvægi. Ég fæ mikinn stuðning heima fyrir, eiginmaðurinn er öflugur og tekur hitann af heimilislífinu þegar það er mikið að gera hjá mér. Svo fáum við mjög góða aðstoð frá foreldrum og tengdaforeldrum. Þetta myndi ekki ganga upp nema með aðstoð þeirra og góðu skipulagi,“ segir Áslaug. Hún bætir því við að það sé mismunandi hvað hentar hverjum og einum, en hún reyni að halda laugardögum alveg heilögum og koma alltaf heim í kvöldmat og svæfa börnin.

„Með árunum er maður jafnframt að læra að vera ekki sífellt með samviskubit, annaðhvort yfir því að vera ekki að sinna vinnunni eða yfir því að vera ekki að sinna börnunum og heimilinu.“

Nánar er rætt við Ásdísi í Áhrifakonum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .