Þór Jónsson, forstöðumaður almannatengsla í Kópavogsbæ, segir að 13 lóðum hafi verið skilað í Kópvogi á síðustu mánuðum og að það séu mun minni skil en óttast var að yrðu vegna efnahagsástandsins. „Ástæða skilanna er einfaldlega sú að fólk á erfiðara með að standa við fjárskuldbindingar sína núna vegna þrenginganna í efnahagslífinu undanfarið. Kópavogsbær hefur gripið til ráðstafana vegna þessa og 8. maí síðastliðinn var tekin ákvörðun á fundi bæjarráðs um að breyta lóðakjörum og gera fólki þannig betur kleift að halda lóðunum sem það hefur fengið úthlutað,“ segir Þór.

20 til 25 lóðum skilað í Reykjavík

„Í fyrra var engri lóð skilað en frá því í apríl á þessu ári hefur á milli 20 og 25 lóðum verið skilað,“ segir Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar.