Ekki liggur fyrir hvað skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda falls sparisjóðanna verður í mörgum bindum. Til samanburðar kom rannsóknarskýrslan um bankahrunið út í níu bindum, skýrsla rannsókarnefndar um starfsemi Íbúðalánasjóðs kom út í fjórum bindum og var úttekt lífeyrissjóðanna á fjárfestingarstefnu þeirra í aðdraganda hrunsins jafn mörgn – eða fjögur bindi.

Hrannar Már Hafberg, formaður rannsóknarnefndarinnar sem vinnur að gerð skýrslunnar, segir í samtali við vb.is málið verða unnið í samstarfi við Alþingi. Eins og fram kom á vb.is í gær er að styttast í útgáfu skýrslunnar.

„Við höfum raðað köflum upp þannig að helstu atriði heyri saman í hverju bindi,“ segir hann og bætir við að málið sé umfangsmikið enda í samræmi við þingsályktunartillögun Alþingis um starfsemi nefndarinnar.

„Hún krefst þess að við gerum samanburð á mismunandi árangri sparisjóðanna, þá getum við ekki takmarkað okkur við þá sjóði sem féllu heldur förum við í gegnum mörg fjármálafyrirtæki yfir langt tímabil. Verkefnið er stórt eins og lagt er upp með af hálfu þingsins. Við verðum að beygja okkur undir það,“ segir Hrannar Már Hafberg.