Ekki liggur fyrir hvenær staða seðlabankastjóra verður auglýst. Það þarf þó að gera með hæfilegum fyrirvara og miðast við það hvenær skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra rennur út. Það verður 20. ágúst næstkomandi. Már hefur greint frá því að hann sé tilbúinn til að sitja áfram.

Samkvæmt núgildandi lögum um seðlabankann skal seðlabankastjóri hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Aðeins er hægt að skipa sama mann seðlabankastjóra eða aðstoðarseðlabankastjóra tvisvar sinnum í stöðuna. Þá skal ráðherra skipa þriggja manna valnefnd sem hafi það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda. Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar. Sá síðasti skal jafnframt vera formaður nefndarinnar.

Ekki liggur fyrir hvað í þessum lögum gæti tekið breytingum í höndum starfshóps á vegum fjármálaráðuneytis sem hefur það á sinni könnu að skoða breytingar á lögum um seðlabankann.