Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að enn hafi ekki verið ákveðið hvenær kosin verði ný stjórn Reykjavík Energy Invest.

„Það eru tvær vikur síðan ný stjórn OR tók við. Fyrsti stjórnarfundurinn var haldinn á föstudaginn var. Það er ekkert óeðlilegt að ný stjórn vilji gefa sér tíma til að fara yfir þessi mál,“ segir Kjartan, spurður að því hvers vegna ný stjórn hafi ekki verið kosin. REI er í eigu Orkuveitunnar.

Tilkynnt var í lok nóvember 2007 að samkomulag væri um að Bjarni Ármannsson léti af störfum sem formaður stjórnar REI um áramótin. Þá ætti fulltrúi Orkuveitunnar að taka við starfi hans. Bjarni starfaði hjá REI eitthvað fram í janúar, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins, en er nú hættur.

Hafliði Helgason, sem var upplýsingafulltrúi REI, hætti líka formlega störfum í janúar.