Ekki er líklegt að breska tískuvörufélagið Shoe Studio Group (SSG) verði skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi í bráð þrátt fyrir ummæli Don McCarthy, forstjóra félagsins, fyrr á þessu ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Í frétt í Viðskiptablaðinu kemur fram að SSG er meðal annars í eigu McCarthy, annarra stjórnenda, Baugs, Kaupþings banka og Kevin Stanford. Stjórnendur og McCarthy eiga um 70% hlut í félaginu. Hlutur Baugs er í kringum 8%.

McCarthy sagði í samtali við blaðamann Financial Sunday Express í júni að áætlað hafi verið að feta í fótspor Mosaic Group og skrá félagið í Kauphöll Íslands í lok sumars. Ekki náðist í McCarthy þegar Viðskiptablaðið reyndi að ná tali af honum í London. Hins vegar segja heimildamenn blaðsins sem þekkja til innan félagsins að enn sé verið að vinna að samruna SSG við Rubicon Retail, sem rekur tískuvöruverslunarkeðjurnar Principles og Warehouse.

Gengi hlutabréfa í Mosaic hefur verið fallandi síðan það var skráð í Kauphöllina. Hæst fór verðið í 14,85 krónur á hlut stuttu eftir skráningu en fór lægst í 13 krónur. Sérfræðingar telja að samdráttur í smásölu í Bretlandi hafi haft mest áhrif á lækkun bréfanna og einnig hafa hryðjuverkaárásirnar í London í júlí haft einhver áhrif.

SSG samþykkti að kaupa Rubicon Retail í febrúar á þessu ári fyrir um 140 milljónir punda. Yfirtakan var fjármögnuð með lánum sem leidd voru af Kaupþingi banka. Principles og Warehouse voru hluti af Arcadia þegar félagið var undir stjórn Stuart Rose, núverandi forstjóra Marks & Spencer, en var keypt út úr Arcadia fyrir um þremur árum.