Íslandsbanki hefur fengið staðfesta grunnlýsingu vegna útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt. Lýsingin er unnin í samstarfi við Bank of America Merrill Lynch, að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Ramminn gefur Íslandsbanka færi á að gefa út jafnvirði 250 milljóna Bandaríkjadala í mismunandi myntum á föstum og fljótandi vöxtum. Upphæðin samsvarar um 31 milljarði króna.

Már Másson upplýsingafulltrúi segir staðfestinguna einn lið í þeirri vinnu sem stendur yfir vegna skuldabréfaútgáfu bankans í erlendri mynt. Hann segir að innan bankans sé ekki talin þörf á lánshæfismati áður en ráðist verði í útgáfu. „Hins vegar er óljóst hvenær við ráðumst í fyrstu útgáfuna, við munum láta það ráðast af aðstæðum á erlendum mörkuðum,“ segir Már.