Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka, keypti 6% hlut í Straumi við lok síðasta árs en aðrir starfsmenn keyptu 24%. Ekki er vitað hversu mikið var greitt fyrir 30% hlut í bankanum. Eins og fram kom í gær áttu starfsmenn Straums 30% hlut í bankanum um síðustu áramót. Pétur segir í samtali við Morgunblaðið að starfsmenn hafi fengið lán til kaupanna auk þess að leggja fram talsvert eigið fé. Hann tekur fram að þetta eru ekki kaupréttarsamningar né neitt þvíumlíkt heldur séu þeir að fjárfesta til lengri tíma. Pétur segir jafnframt að lykilstarfsmenn eigi oft 30 til 50% í minni fjárfestingarbönkum erlendis enda byggist reksturinn alfarið á starfsfólki, hugmyndum og samböndum þeirra til að skapa verðmæti.

Eigendur Straums er félagið ALMC sem upphaflega voru kröfuhafar gamla Straums og eignuðust þeir fyrirtækið eftir að það fór í gegnum nauðasamninga. Þeir voru að stórum hluta erlendir. Nú ganga bréfin kaupum og sölum og ekki er opinbert hvernig eigendahópurinn er samsettur, að því er segir í Morgunblaðinu.