Hverja telur þú að séu helstu veikleikar íslensks viðskiptalífs í dag?

„Einn af þeim veikleikum sem ég sé í umhverfi íslenskra fyrirtækja er að við þurfum að vera með opnara og frjálsara viðhorf, ekki láta reglur og reglugerðarumhverfi drepa niður það frumkvöðlaeðli sem býr í íslenskri þjóð. Hér þarf m.a. breytt hugarfar innan stjórnsýslunnar, að stjórnsýslan líti á sig sem stuðningsaðila íslensks viðskiptalífs, en ekki varðhund sem hefur allt á hornum sér. Við erum saman í liðinu og við þurfum að vinna sem ein heild. Mig langar að sjá stjórnsýsluna og íslenska ráðamenn byggja upp hugrekki og hvata fyrir þjóðina til þess að standa sig vel – hvetja frekar en að setja upp hindranir. Ég vitna stundum í Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, mér finnst hann slá kapp í brjóst kanadísku þjóðarinnar – ég vil sjá meira af slíku hér. Hér er of mikið horft á að þrengja umhverfi íslenskra fyrirtækja og kæfa þau með flækjustigi. Við þurfum öflugt samfélag, öflug fyrirtæki, öfluga efnahagstjórnun – þá eru okkur allir vegir færir. Mér hefur undanfarið fundist of mikil áhersla á það í íslensku samfélagi hvað við erum ósammála um, í stað þess að horfa á það sem við erum sammála um Það er mín tilfinning að við séum sammála í 8090% tilvika, en erum sífellt að þrasa um þessi 10-20% og það er ekki gott fyrir samfélagið. Mig langar að við förum að vinna þannig að við sammælumst um þessi 80-90% – og restin sé síðan til þess að hafa blæbrigðamun. Þannig stjórnun sýnist mér vera meira á hinum Norðurlöndunum og það hefur skilað þeim góðum árangri. Með þessu þá værum við ekki að kollvarpa öllu á fjögurra ára fresti í kosningum – heldur höldum við áfram með langtímastefnuna sem að lokum skilar okkur aukinni hagsæld,“ segir Katrín.

Ekki má byggja á skammtímahugsunarhætti um skjótfenginn gróða

Katrín Olga segist jafnframt sjá ónýtt tækifæri á mörgum sviðum. „Ég held að við eigum inni á öllum sviðum. Við getum gert betur í sjávarútvegi með því að auka virði afurðanna og fara inn á ný svið. Innan orkugeirans liggja líka tækifæri sem við eigum að að vera opin fyrir að skoða, t.d lagning sæstrengs til Bretlands. Þarna finnst mér að umræðan mætti vera í meira jafnvægi. Af hverju ekki að meta valkostinn áður en við höfnum honum? Við þurfum að geta tekið upplýstar ákvarðanir og til að svo geti orðið þarf að meta hlutina. Innan ferðaþjónustunnar liggja ótal tækifæri, enda erum við að byrja að fóta okkur í þeim geira og þar þurfum við að vanda okkur og fórna ekki langtímahagsmunum fyrir skammtíma. Mér finnst við t.d. einblína of mikið á gjaldtöku í stað þess að horfa til þess hvað þessi grein er að skila okkur í ríkiskassann, við þurfum að nýta þær tekjur og fjárfesta til framtíðar m.a. í uppbyggingu innviða s.s vegagerðar og flugstöðvar. Stundum finnst mér við of þröngsýn á þessu sviði í stað þess að lyfta okkur hærra og horfa til lengri tíma. Það er eins og okkur vaxi í augum þær miklu fjárfestingar sem við þurfum að takast á við en ef við ætlum að byggja þessa atvinnugrein upp þá verðum við að fjárfesta til framtíð­ ar. Einnig vil ég hvetja einkaframtakið til að vanda sig – ekki byggja á skammtímahugsanahætti um skjótfenginn gróða, heldur að vanda til verka, halda uppi háu gæða- og þjónustustigi, sem skilar okkur miklu meira til lengri tíma litið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .