Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður gagnrýnir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag stofnun embættis sérstaks saksóknara til þess að rannsaka möguleg afbrot manna í aðdraganda bankahrunsins. Það sé sérkennilegt, skrifar hann, í ljósi þess að enginn rökstuddur grunur sé um að refsiverð brot hafi verið framin.

Hann segir að ekki megi fórna grundvallarreglum réttarfars og mannréttinda vegna almennrar reiði í samfélaginu.

Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara. Miðað er við að sá saksóknari starfi tímabundið og að verkefni hans verði að annast rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda bankahrunsins og eftir atvikum fylgja henni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.

Fiskað í gruggu vatni

Brynjar segir að fólk sé reitt og við slíkar aðstæður segi mannkynssagan okkur að réttarríkinu sé hætta búin. „[S]érstaklega ef stjórnmálamenn, fjölmiðlar og fjölmennir hagsmunahópar kynda undir ásakanir um refsiverða háttsemi einstaklinga sem stjórnuðu bönkunum og jafnvel annarra sem höfðu einhvers konar eftirlitshlutverk með fjármálastarfsemi í landinu."

Hann segir að í slíku andrúmslofti spretti hugmyndir um breytingar á grundvallarreglum réttarfars og mannréttinda. „Setja skal á fót sérstakt embætti saksóknara til að rannsaka hugsanleg afbrot manna án þess að rökstuddur grunur um brot liggi fyrir. Þetta hefur oft verið kallað að fiska í gruggugu vatni," skrifar hann.

Almenn rannsókn fari fram

Brynjar tekur fram að væntanlega sé enginn ágreiningur um það að fram fari rannsókn á orsökum á hruni bankanna og öðru í kjölfar þess.

Hann segir einnig að leiði slík almenn rannsókn á orsökum hrunsins til þess að rökstuddur grunur sé um refsiverð brot einstakra manna eigi að vísa málinu til viðeigandi yfirvalda til sakamálarannsóknar eins og lög gera ráð fyrir.