*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 20. janúar 2020 18:44

„Ekki mátti miklu muna að illa færi“

Gylfi Zöega segir að einkageirinn en ekki ríkið þurfi að leiða hagvöxt. Búast megi við því að tækni og útlönd taki við störfum frá Íslandi.

Ingvar Haraldsson
Gylfi Zöega, nefndarmaður í peningastefnunefnd.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Zöega, nefndarmaður í peningastefnunefnd, segir að litlu hafi munað að illa færi, í hagstjórn hér á landi síðasta vor. Þetta kemur fram í skýrslu Gylfa til Alþingis, sem nefndarmaður í peningastefnunefnd. 

Gjaldþrot Wow air hafi leitt af sér fækkun ferðamanna með tilheyrandi í samdrætti eftirspurnar sem hagstjórn hafi þurft að bregðast við. Einnig hafi þurft að taka tillits til óróleika á vinnumarkaði, verkfalla og mögulegra launahækkana. 

„Þetta má orða þannig að á eftirspurnarhlið hagkerfisins hafi orðið hnykkur sem lækkaði landsframleiðslu en á framboðshlið hefðu getað orðið umtalsverðar launahækkanir sem hefðu gert hagstjórn erfiða. Eftirspurnarhnykkurinn kallaði á vaxtalækkun til þess að örva landsframleiðslu en miklar launahækkanir á framboðshliðinni hefðu aukið verðbólgu og kallað á hærri vexti. Ekki mátti miklu muna að illa færi, að peningastefnan hefði þurft að verða aðhaldssamari vegna vaxandi verðbólgu einmitt þegar eftirspurn minnkaði. Inngrip stjórnvalda, sem fólst m.a. í aðgerðum í skattamálum og yfirlýsingu um að hófsamir kjarasamningar gerðu vaxtalækkun mögulega urðu þess valdandi að aðilar vinnumarkaðarins sömdu um hóflegar launahækkanir. Þetta gerði peningastefnunefnd kleift að örva eftirspurn með vaxalækkunum í stað þess að hækka vexti til þess að stemma stigu við vaxandi verðbólgu,“ segir Gylfi.

Peningastefnunefnd hefur lækkað stýrivexti um 1,5 prósentustig frá undirskrift kjarasamninga vor. Stjórnvöld hafa einnig lækkað skatta og aukið útgjöld sem nemur 0,5% landsframleiðslu þessa árs. Því sé búist við að einungis hafi orðið 0,2% samdráttur 2019 og hagvöxtur verði á þessu ári samkvæmt hagspám.

Þá sé verðbólga á verðbólgumarkmiði Seðlabankans og búist sé við að svo verði áfram. Þar skipti máli að Seðlabankinn hafi fleiri tæki en bara stýrivexti, til að mynda geti sett á bindiskyldu á innflæði erlends fjármagns.

Tækni og útlönd taki við íslenskum störfum

Hins vegar séu enn hættumerki á lofti. „Þótt tekist hafi að bæta kjör launþega á vormánuðum með hóflegum launahækkunum og breytingu á skattkerfi þá eru raunlaun hér á landi engu að síður mjög há í samanburði við launastig í viðskiptalöndunum

Meðallaun árið 2018 hafi verið þau hæstu í dollurum árið 2018, leiðrétt fyrir verðlag. „Hagvexti í hálaunalandi eru skorður settar. Hagnaður sem hlutfall af þjóðartekjum er lægri og þá er hvati til fjárfestinga minni. Fyrirtæki í samkeppnisgreinum búa við erfiða samkeppnisstöðu. Í útflutningi verður hagnaður minni og fyrirtæki í innflutningi fá samkeppni í formi netverslunar og innkaupaferða til útlanda. Fyrirtæki reyna við þessar aðstæður að auka hagnað með því að hagræða. Á næstu misserum munu fyrirtæki hér á landi leitast við að lækka kostnað m.a. með aukinni tækni sem fækkar störfum og með því að flytja störf sem ekki krefjast staðbundinnar þekkingar til annarra landa. Hvoru tveggja mun minnka atvinnu. Á meðan gæti hagvöxtur haldist lágur.“

Frumkvæði einkageirans leiði hagvöxt

Staðan nú minni á stöðuna á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar fyrirtæki þurftu að venjast hærra vaxtastigi. Vextir séu þó mun lægri en þá, en hærri en síðustu tvo áratugi. Þá sé launakostnaður hár. Því megi búast við að einhver fyrirtæki hætti rekstri, önnur endurskipuleggi sig, tækni leysi starfsfólk af hólmi og störf séu flutt úr landi. 

„Framundan er líklega tímabil hóflegrar verðbólgu, lítils hagvaxtar en vaxandi framleiðni í fyrirtækjum sem hagræða til þess að ná kostnaði niður. Atvinnuleysi fer þá hægt vaxandi. Peningastefnan og fjármálastefna ríkisins hefur gert sitt til þess að lina samdráttinn en hagvöxtur til framtíðar byggist á frumkvæði einkageirans,“ segir Gylfi.

Stikkorð: peningamál Gylfi Zöega