*

laugardagur, 22. febrúar 2020
Innlent 24. ágúst 2019 17:46

Ekki með nógu lág laun

Þó skortur sé á húsnæði víða úti á landi hafa lög um stofnfjárframlög til uppbyggingar leiguíbúða ekki nýst þar.

Höskuldur Marselíusarson
Framkvæmdastjóri greininga og áætlanasviðs hjá Íbúðalánasjóði, Sigrún Ásta Magnúsdóttir, segir hugmyndir um breytingar á lögum um hinar félagslegu almennu íbúðir settar fram til að bregðast við öðruvísi aðstæðum á landsbyggðinni en í borginni.

Sigrún Ásta Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri greininga og áætlanasviðs hjá Íbúðalánasjóði, segir tillögum, sem hafa verið lagðar fram til breytinga á lögum um svokallaðar almennar íbúðir, sé ætlað að bregðast við ólíkum aðstæðum á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Þörfin hafi komið skýrt fram í tilraunaverkefni sjóðsins og valinna sveitarfélaga sem nú sé í gangi.

„Hugmyndin er að kerfið nýtist betur á landsbyggðinni þar sem aðstæður eru öðruvísi en á höfuðborgarsvæðinu þar sem markaðurinn er skilvirkari. Það eru mörg dæmi um að það sé verulegur skortur á leiguhúsnæði á þessum svæðum, án þess að þeir sem séu í mestri þörf séu endilega leigjendur undir tekju- og eignamörkum eins og þau eru skilgreind í lögunum. Þar er miðað við að þessi stuðningur sé til handa lægstu tveggja tekjufimmtunganna,“ segir Sigrún Ásta.

Hún segir hugtakið almennar íbúðir í lögunum sem samþykkt voru árið 2016, sem þrátt fyrir nafnið eru félagslegt úrræði en ekki íbúðir á almennum leigumarkaði, koma úr dönskum fyrirmyndum. „Lögin eru byggð á hugmyndafræði sem hefur verið nýtt í Danmörku og þaðan kemur þetta væntanlega sem þýðing á Almindlig boliger. Það hefur einmitt verið nefnt að mörgum finnist hugtakið almennar íbúðir í félagslegu samhengi ruglingslegt. Lögin ná einungis til leiguíbúða og er markmið þeirra að leigan fari að jafnaði ekki umfram fjórðung af tekjum íbúanna.

Húsnæðissjálfseignarstofnanirnar sem sjá um leiguna fá 18% í eiginfjárframlag frá ríkinu og 12% frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðin er byggð. Ef um er að ræða hefðbundnar félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaganna til sértækra hópa, geta þau svo fengið 4% viðbótarframlag frá ríkinu. Svo er hægt að fá 6% viðbótarframlag á svæðum þar sem uppbygging leiguíbúða hefur verið í lágmarki vegna áðurnefnds misvægis byggingarkostnaðar við markaðsverð, en nú hefur komið í ljós að það er oft ekki nóg.“

Sigrún Ásta segir tillögurnar, sem byggja á niðurstöðum vinnu með völdum sveitarfélögum á landinu sem stóðu frammi fyrir mismunandi útgáfum á þessum vanda, vera í tólf liðum. Sveitarfélögin sjö sem valin voru í samstarfsverkefnið með Íbúðalánasjóði voru Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Seyðisfjörður, Norðurþing, Hörgársveit og síðan voru Vesturbyggð og Dalabyggð valin sem samvinnuverkefni.

„Þetta ákvæði um 6% viðbótarframlagið er ekki að virka nægilega vel á landsbyggðinni óbreytt, því misvægið getur verið mjög ólíkt eftir því hvar við erum á landsbyggðinni,“ segir Sigrún Ásta. Hún segir hugmyndina að opna fyrir að viðbótarframlagið geti líka nýst í uppbyggingu íbúða fyrir aðra en tekjulægstu hópana.

„Þess vegna erum við að kynna núna þetta sérstaka byggðaframlag ef 6% ná ekki að brúa bilið, en auk þess að vera heimilt að nota það til viðbótar öðrum stofnframlögum er hugmyndin að einnig verði hægt að veita undanþágu til að nýta þau sjálfstætt fyrir leiguíbúðir óháð tekjuog eignamörkum. Þannig yrði hægt að sækja um framlagið til að bregðast við húsnæðisskorti akkúrat á þeim svæðum þar sem þessi hópur er ekki tilfinnanlegur og er hann þá hugsaður sem sérstakur byggðastuðningur. Áfram gilda þó sömu skilyrði um óhagnaðardrifna leigustarfsemi og í lögunum um almennar íbúðir eins og þau heita núna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.