Eigendur Nyhedsavisen, Stoðir Invest og danski fjárfestirinn Morten Lund, höfðu ekki gengið frá fjármögnun á útgáfu blaðsins í gær. Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lítið sé hægt að segja um málið, það sé í höndum meirihlutaeigandans Morten Lund. Því er ljóst að Stoðir Invest munu ekki koma með meira fé inn í reksturinn, en einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins staðfesti það.

Þess má geta að Stoðir Invest eiga þegar fjögurra milljarða skuldabréf frá Nyhedsavisen, en félög helstu eigenda Gaums, sem er eigandi Stoða Invest, hafa alls látið 6-8 milljarða í rekstur blaðsins frá upphafi. Ljúka þarf fjármögnun útgáfunnar fyrir mánudaginn svo að endurskoðendur og stjórnarmenn geti skrifað upp á ársreikninginn. Hermann Haraldsson, framkvæmdastjóri knattspyrnuliðsins Brøndby, situr í stjórn Nyhedsavisen. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að meiri líkur en minni séu á því að fjármögnun blaðsins verði tryggð.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .