Í október hækkaði leiðandi hagvísir Analytica þriðja mánuðinn í röð, en hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum.

Hækkuðu fjórir af sex undirliðum frá í september, einkum komur ferðamanna, væntingavísitala Gallup og verðmæti fiskafla.

„ Mest áhrif hafa fjölgun ferðamanna og verðmæti fiskafla en að teknu tilliti til árstíðasveiflu hefur bjartsýni ekki verið meiri frá árinu 2007,“ segir í fréttatilkynningu Analytica.

„Mikill vöxtur er áfram í komum ferðamanna frá fyrra ári og langtímauppleitni einstakra undirþátta virðist enn að styrkjast. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.“

Varar tímanlega við viðsnúningi

Jafnframt voru eldri gildi lítillega endurskoðuð en hagvísirinn bendir áfram til hagvaxtar yfir langtímaleitni.

Hlutverk vísitölunnar er að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum, hann er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga, en hugmyndin er að framleiðsla hafi aðdraganda.

„Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga,“ segir í fréttatilkynningu frá Analytica.

„Leiðandi hagvísir Analytica hækkar í október og tekur gildið 102,2[...] Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar þ.e. í apríl 2017. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.“

Er vísitalan reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar, og er sérstaklega tekið mið af verklagi OECD.