Fjármagnsflótti frá Rússlandi hefur nú aldrei verið meiri en frá því í fjármálakreppunni í ágúst árið 1998, en þá hætti rússneska ríkið að borga af skuldabréfum sínum og gripið var alþjóðlegrar neyðaraðstoðar.   Samkvæmt opinberum tölum féll gjaldeyrisforði landsins um 16,4 milljarða Bandaríkjadala í síðustu viku. Samkvæmt frétt breska blaðsins Financial Times hefur ávöxtunarkrafan á innlendum rúblubréfum hækkað um 150 punkta það sem af er mánuði. Helsta hlutabréfavísitala landsins hefur fallið um 6,5% en að sama skapi hefur gengi rúblunnar haldist bærilega stöðug, en það má fyrst og fremst rekja til inngripa seðlabankans á gjaldeyrismarkaði.   Þrátt fyrir að fjármagnsflóttinn sé fyrst og fremst rakin til alþjóðlegrar spennu vegna hernaðarátaka Rússa og Georgíumanna sem hófust þann 8. ágúst eru fleiri öfl að verki. Flóttans tók að gæta áður en átökin brutust út þegar Vladímír Pútín, forsætisráðherra, ásakaði námuvinnslufyrirtækið Mechel um brot á samkeppnislögum. Ummæli Pútíns urðu til þess að markaðsvirði fyrirtækisins féll um átta milljarða dala. Segja má að stríðsátökin í Kákasus hafi magnað upp fyrirliggjandi ótta fjárfesta um þá pólitísku áhættu sem fylgir því að eiga í viðskiptum í Rússlandi.   Fram kemur í umfjöllun Financial Times að Dmitri Medvedev, forseti, er undir miklum þrýstingi frá forráðamönnum í atvinnulífi Rússlands vegna ástandsins á fjármálamörkuðum. Fréttir hafa borist af því að Vladímír Potanín, forstjóri Interros sem er eitt stærsta iðnaðarfyrirtæki landsins, hafi kvartað yfir takmörkuðu aðgengi að langtímafjármagni við forsetann. Sérfræðingar hafa bent á það rússneska hagkerfið reiðir sig í miklu mæli á erlenda fjárfesta þegar kemur að slíku fjármagni. Hreyfingarnar sýna að þrátt fyrir að Rússland gjaldeyrisstaða Rússa sé ein sú sterkasta heimi þá er hagkerfið ekki ónæmt fyrir breytingum á viðhorfi fjárfesta.   Financial Times hefur eftir Alexei Kudrin, fjármálaráðherra landsins, að fjármagnsflóttinn sé að mestu yfirstaðin og annað innstreymi fjármagns bæti hann upp. Hinsvegar bendir blaðið á það að minnkandi traust alþjóðlegra fjárfesta á rússneska hagkerfinu gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir þegar að því að afla sér lánsfé þar sem að eins og áður segir þá er hlutfall erlends lánsfé af fjárfestingu í einkageiranum hátt í Rússlandi.