Eftir 1% hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali milli ágúst og september mælist 12 mánaða hækkun nú 5,6% og hefur hún ekki verið hærri frá því í desember 2018 að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir helgi uppúr tölum Þjóðskrár jókst velta á fasteignamarkaði um nærri 13% í september frá fyrri mánuði og hefur hann ekki verið líflegri síðan árið 2007 með 20% fleiri kaupsamningum en á sama tíma í fyrra, eða 882, þar af 746 í fjölbýli og 136 í sérbýli.

Fjölgunin er 30% í fjölbýli, en 20% í sérbýli, en verðhækkunin nú nam 1% í fjölbýli, en um 0,6% á sérbýli. Á sama tíma hækkaði verð á öðrum vörum en húsnæði um 0,5%, svo raunverðshækkunin er þá einnig 0,5%.

Segir greining Landsbankans það vekja sérstaka athygli að verð á sérbýli hafi hækkað talsvert hraðar á fjölbýli á allra síðustu mánuðum í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn hófst.

Þannig hafi verð á sérbýli hækkað um 6,9% frá því að faraldurinn sem veldur Covid 19 sjúkdómnum fór að dreifast um landið í mars, á sama tíma og hækkun á fjölbýli nemi 3,1% sem sé talsverður munur.

Leiðir greining bankans að því líkum að aukinn tími fjölskyldna heima við vegna faraldursins, ásamt auknum möguleikum til fjarvinnu, hafi aukið eftirspurnina eftir stærri eignum og þar með skapað þrýsting til hækkunar verðlags.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að í nýrri Þjóðhags og verðbólguspá Landsbankans geri greining hans ráð fyrir því að íbúðaverð hækki um 4,5% í ár og að jafnaði um 4% á ári næstu árin.